Erlent

Fyrsti leiðangursstjórnandi NASA látinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Kraft í leiðangursstjórn Merkúrleiðangranna í Houston í Texas.
Kraft í leiðangursstjórn Merkúrleiðangranna í Houston í Texas. AP/NASA

Chris Kraft, fyrsti leiðangursstjórnandi bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA, er látinn, 95 ár að aldri. Hann andaðist tveimur dögum eftir fimmtíu ára afmæli fyrstu tungllendingarinnar en Kraft lék lykilhlutverk í skipulagningu og stjórn fyrstu mönnuðu geimferðanna.

Hálfrar aldar afmæli Apolló 11-leiðangursins til tunglsins var fagnað um helgina. Kraft kom á fót leiðangursstjórn NASA fyrir fyrstu mönnuðu geimferðirnar í Gemini- og Merkúrleiðöngrunum. Hún fylgdist með kerfum geimfaranna og hafði samskipti við geimfarana.

Kraft stýrði meðal annars för Alans Shepard, fyrsta Bandaríkjamannsins sem fór út í geim, 5. maí árið 1961 og öllum sex Merkúrleiðöngrunum og sjö af tíu Gemini-ferðunum, að sögn Spaceflight Now. Hann var yfirmaður geimferða hjá NASA fram að Apolló 13-leiðangrinum og varð síðar forstöðumaður Johnson-geimmiðstöðvarinnar í Texas.

Jim Brindenstine, forstjóri NASA, lofaði framlag Kraft til tunglferðanna og sagði arfleið hans ómetanlega.

„Bandaríkin hafa misst sannkallaða þjóðargersemi í dag með fráfalli einum fyrsta brautryðjanda NASA,“ sagði Bridenstine í yfirlýsingu.

Kraft í gamla leiðangursstjórnarsalnum í Johnson-geimmiðstöðinni árið 2011. Hann hætti formlega störfum fyrir NASA árið 1982. Vísir/AP

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.