Erlent

Taka fanga aftur af lífi eftir áralangt hlé

Kjartan Kjartansson skrifar
William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. AP/John Bazemore
Bandaríska alríkisstjórnin ætlar að byrja aftur á að framfylgja dauðarefsingum eftir sextán ára hlé. William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti um ákvörðunina í dag. Fimm fangar verða teknir af lífi frá og með desember.

Síðast var fangi sem dæmdur var fyrir alríkisglæp tekinn af lífi árið 2003. Síðan þá hefur óformlegt hlé á aftökum verið í gildi hjá alríkisstjórninni á meðan hún fór yfir lögmæti þess að taka fanga af lífi með banvænum sprautum.

Barack Obama, fyrrverandi forseti, skipaði dómsmálaráðuneytinu að endurskoða dauðarefsingar og banvænar sprautur árið 2014. Sú endurskoðun varð til þess að hætt var að framfylgja dauðarefsingum í reynd, að sögn AP-fréttastofunnar. Einstök ríki Bandaríkjanna hafa áfram framfylgt dauðarefsingu fyrir glæpi sem ríkisdómstólar hafa rétta um.

Nú segir Barr að fangelsismálastofnunin hafi lokið sinni endurskoðun og hægt sé að hefja aftökur á nýjan leik.

Fangarnir fimm sem verða nú teknir af lífi voru allir dæmdir til dauða fyrir að myrða börn, að sögn Washington Post. Þeir verða teknir af lífi í desember og janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×