Sport

Sundsvindlaranum fagnað sem hetju við heimkomuna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sun Yang vann tvenn gullverðlaun á HM í 50 metra laug í Gwangju.
Sun Yang vann tvenn gullverðlaun á HM í 50 metra laug í Gwangju. vísir/getty
Sundkappinn umdeildi, Sun Yang, fékk höfðinglegar móttökur er hann kom heim til Kína í gær.

Fjöldi fólks var samankominn á flugvellinum í Hangzhou til að fagna Yang sem vann til gullverðlauna í 200 og 400 metra skriðsundi á HM í 50 metra laug í Gwangju í Suður-Kóreu. Aðdáendur Suns héldu á myndum af honum og skiltum með hvetjandi skilaboðum.



Sun er afar umdeildur innan sundheimsins en hann var dæmdur í þriggja mánaða bann eftir að hann féll á lyfjaprófi 2014. Örvandi efnið trimetazidine fannst í sýni hans.

Eftir að hafa tekið út bannið sneri Sun aftur í laugina og hefur síðan þá unnið til fjölda verðlauna, þ.á.m. til tvennra gullverðlauna á HM í Gwangju sem lauk um helgina. Margir af helstu keppninautum Suns telja að hann eigi ekki að fá að keppa og tveir þeirra mótmæltu á áberandi hátt á HM í Gwangju.

Í bæði 200 og 400 metra skriðsundi neituðu verðlaunahafar að stíga upp á verðlaunapallinn með Sun. Skotinn Duncan Scott varð þriðji í 200 metra skriðsundi og Ástralinn Mack Horton tók silfrið í 400 metra skriðsundinu. Báðir neituðu þeir að deila verðlaunapallinum með Sun og vildu ekki láta taka myndir af sér með honum.

Sun svaraði fyrir sig, öskraði á Scott að hann væri tapsár og sakaði Horton um að sýna Kína vanvirðingu með uppátæki sínu.

Sun, Scott og Horton voru allir áminntir af Alþjóðalega sundsambandinu fyrir framkomu sína.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×