Erlent

Ætlar að standa með sendi­herrum verði hann for­sætis­ráð­herra

Sylvía Hall skrifar
Boris Johnson þykir líklegur til þess að verða næsti forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson þykir líklegur til þess að verða næsti forsætisráðherra Bretlands. Vísir/Getty
Boris Johnson var harðlega gagnrýndur fyrir að taka ekki afstöðu með Kim Darroch, fráfarandi sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum, í kjölfar minnisblaðaleka sem birtist í breska dagblaðinu Mail on Sunday. Boris svaraði gagnrýninni á stuðningsmannafundi í dag þar sem hann sagðist lofa því að standa með sendiherrum landsins.

Minnisblaðalekinn olli miklum usla í vikunni sem leið en þar voru ummæli sendiherrans um Donald Trump Bandaríkjaforseta og stjórn hans gerð opinber. Sagði hann Trump og stjórn hans vera klunnalega og óstarfhæfa en sendiherrann sagði af sér í gær vegna málsins.

Theresa May kom sendiherranum til varnar og sagði hann njóta fulls stuðnings ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir að skoðanir hans endurspegluðu ekki skoðanir þeirra. Í kjölfarið birti Trump færslur á Twitter-síðu sinni þar sem hann fór ófögrum orðum um bæði sendiherrann og May sjálfa.

Sjá einnig: Gagn­rýnir May og segir sendi­herrann vera heimskan

Í kappræðum Íhaldsflokksins veigraði Johnson sér við það að lýsa yfir stuðningi við sendiherrann og fordæma ummæli Trump. Í kjölfarið var hann harðlega gagnrýndur af samflokksmönnum sínum og sögðu margir hann gera það til þess að styrkja samband sitt við Trump.

„Ég mun standa með okkar frábæru sendiherrum um allan heim,“ sagði Johnson á stuðningsmannafundi sínum en ítrekaði þó að það benti margt til þess að samband Bretlands við Bandaríkin væri það mikilvægasta.

Johnson tók ekki undir þau sjónarmið að hann væri að viðhalda góðu sambandi sínu við Bandaríkjaforseta og sagðist margoft hafa gagnrýnt hann. Til að mynda væri hann og ríkisstjórn Bretlands ósammála stefnu þeirra varðandi loftslagsvandann og hét hann því að vera fastur fyrir í samskiptum sínum við Bandaríkin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×