Innlent

Lög­regla þurfti ekki að vera við­stödd þegar for­eldrum var sýnd upptaka af barninu

Eiður Þór Árnason skrifar
Persónuvernd segir merkingar í íþróttamiðstöðinni ekki hafa samræmst lögum.
Persónuvernd segir merkingar í íþróttamiðstöðinni ekki hafa samræmst lögum. Fréttablaðið/Vilhelm - Getty/hallojulie
Stjórnendum íþróttamiðstöðvarinnar í Borgarnesi var ekki heimilt að neita því að sýna foreldrum upptökur af barni sínu nema þeir væru í viðurvist lögreglu. Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar.

Foreldrar barnsins sendu kvörtun til Persónuverndar vegna vinnslu íþróttamiðstöðvarinnar á myndabandsupptökum af ólögráða barni þeirra.

Þar lýstu þeir óánægju sinni með að upptökur úr öryggismyndavélum hafi verið sýndar öðrum aðilum án þess að fá til þess heimild frá barni eða foreldrum. Einnig var kvartað undan því að þeim hafi ekki verið leyft að sjá myndbandið sem náðist af barni þeirra.

Í svörum Borgarbyggðar til Persónuverndar kemur fram að umrædd upptaka hafi verið skoðuð vegna gruns um agabrot nemanda í íþróttamiðstöðinni á skólatíma, en þar fer fram kennsla í sundi og íþróttum á vegum grunnskólans í Borgarnesi.

Ætlunin hafi verið að skoða hvort að árekstur barna hafi tengst einelti í skólanum. Af þeim sökum hafi skólastjóri og einn kennari grunnskólans fengið að sjá upptökuna af barninu, ásamt forstöðumanni íþróttamiðstöðvarinnar.

Niðurstaða Persónuverndar var sú að skoðun þeirra aðila hafi samræmst lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Einnig segir í svari Borgarbyggðar að foreldrum barnsins hafi einungis verið leyft að skoða upptökuna ef lögreglumaður væri viðstaddur. Foreldrarnir eru sagðir hafa hafnað því boði.

Foreldrarnir fullyrða hins vegar að Borgarbyggð fari með rangt mál í svari sínu. Þeir segja að skólastjóri grunnskólans hafi ætlað að sýna þeim upptökuna, en eftir að hafa kynnt sér málið betur hafi hann neitað því þar sem hann taldi að þeim væri ekki heimilt að sjá hana.

Persónuvernd segir í úrskurðinum að engar kröfur séu gerðar í lögum um að skoðun á myndefni sem verði til með rafrænni vöktun þurfi að fara fram í viðurvist lögreglunnar. Því telur stofnunin að íþróttamiðstöðinni hafi ekki verið heimilt að neita foreldrunum um að skoða upptökuna.

Foreldrarnir kvörtuðu einnig undan því að merkingar sem upplýstu gesti íþróttamiðstöðvarinnar um að rafræn vöktun færi þar fram með öryggismyndavélum hafi verið ófullnægjandi. Persónuvernd féllst á þau sjónarmið og sagði merkingarnar ekki samrýmast lögum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×