Enski boltinn

Kærður fyrir líkamsárás í leikmannagöngunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joey Barton fyrir framan leikmannagöng en þó ekki þau sömu og þegar hann réðst á stjóra Barnsley.
Joey Barton fyrir framan leikmannagöng en þó ekki þau sömu og þegar hann réðst á stjóra Barnsley. Getty/Andrew Kearns
Joey Barton er enn á ný í vandræðum og nú gæti hann verið á leið í fangelsi. Barton hefur verið kærður fyrir líkamsárás á leik lið hans á móti Barnsley í apríl.

Joey Barton er knattspyrnustjóri enska félagsins Fleetwood Town en var ekki í allt of góðu skapi eftir 4-2 tap á móti Barnsley í ensku C-deildinni 13. apríl síðastliðinn.

Barton er ákærður fyrir að hafa ráðist á knattspyrnustjóra Barnsley í leikmannagöngunum eftir leikinn. Lögreglan sagði að einn maður hafði slasast á andliti í árásinni.





Barnsley sendi inn kvörtun vegna atviksins til enska knattspyrnusambandsins og til forráðamanna ensku deildarinnar en nú er þetta orðið lögreglumál.

Joey Barton hefur eindregið haldið fram sakleysi sínu og að hann hafi aldrei ráðist á stjóra Barnsley sem heitir Daniel Stendel.

Hinn 36 ára gamli Joey Barton er laus gegn tryggingu til 9. október næstkomandi eða þegar málið verður tekið fyrir réttarsal í Suður-Jórvíkurskíri.





Lögreglan í Suður-Jórvíkurskíri hefur biðlað til fólks að koma fram sem var vitni af atvikinu eða náði því jafnvel á mynd.

Joey Barton tók við starfi knattspyrnustjóra Fleetwood Town í apríl 2018. Hann var mikill vandræðagemlingur innan sem utan vallar á sínum ferli sem leikmaður og virðist ekki ætla að þroskast mikið þótt að hann nálgist nú fertugsaldurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×