Samkvæmt árlegri skýrslu Landsnets um afl og orkujöfnuð í landinu er talið að líkur séu á aflskorti árið 2022. Er þetta byggt á núverandi raforkuframleiðslu, fyrirsjáanlegri uppbyggingu og áætlaðri notkun.
Því hefur löngum verið haldið fram að á Íslandi sé til næg raforka. En breytingar í samfélaginu hafa áhrif á notkunina.
„Ný tækni og aukin tækjanotkun hafa einnig áhrif. Öll sjálfvirkni er í raun keyrð á rafmagni,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.
Þrjú ár eru ekki langur tími. Sérstaklega í ljósi þess að þær nýju virkjanir sem bætast við á næstu árum eru smáar í sniðum.
Oftast tekur um sjö til fimmtán ár að koma upp stórri vatnsaflsvirkjun. Guðmundur segir að hægt sé að koma upp vindorkuverum á skemmri tíma en þau séu háð veðri.
„Ef við lendum í aflskorti þá eru teknar ákvarðanir um hvar þurfi að skera tímabundið á raforku og á hvaða tímum. Það verður þá á þeim tíma þar sem notkunin er mest,“ segir Guðmundir Ingi.
Að sögn Guðmundar Inga yrði orka þá skorin niður á daginn, og ákveða þyrfti hvort það yrði hjá fyrirtækjum eða einstaklingum. Einnig á hvaða svæðum.
„Það ber ekkert fyrirtæki ábyrgð á að hér sé til næg raforka. Ábyrgðin liggur hjá stjórnvöldum í landinu hverju sinni. Við höfum komið þessum skilaboðum til stjórnvalda og teljum að á það sé hlustað,“ segir forstjóri Landnets.
Gæti farið svo að skera þyrfti á rafmagn á mestu álagstímunum
