Innlent

Kona hand­tekin grunuð um að stinga sam­býlis­mann sinn

Agnar Már Másson skrifar
Konan er grunuð um að hafa veitt manninum lífshættulega stunguáverka aðfaranótt laugardags 18. október.
Konan er grunuð um að hafa veitt manninum lífshættulega stunguáverka aðfaranótt laugardags 18. október. Vísir/Vilhelm

Kona á fimmtugsaldri var handtekin í Grindavík á þriðjudag þar sem hún er grunuð um að stinga sambýlismann sinn í íbúð þeirra. Málið er rannsakað sem heimilisofbeldi. Henni hefur verið sleppt úr haldi.

Greint var frá því í vikunni að Lögreglan á Suðurnesjum hefði verið kölluð út að heimahúsi í Grindavík síðustu helgi, nánar til tekið aðfaranótt laugardagsins 18. október, þar sem hún hafi brugðist við tilkynningu um hávaða í íbúð.

Þegar lögregla mætti á vettvang blasti við maður með lífshættulega stunguáverka, sem var í kjölfarið fluttur á Landspítalann í Fossvogi til frekari aðhlynningar. Í fyrstu hafði lögreglan talið að maðurinn hefði sjálfur veitt sér stungusárin en útilokaði ekki að hann gæti hafa orðið fyrir stunguárás enda hafi hann ekki verið einn í íbúðinni.

Bjarney Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, segir við Vísi í dag að kona á fimmtugsaldri hafi verið handtekin á þriðjudag þar sem hún er grunuð um að hafa veitt manninum stunguáverka. Rúv greindi fyrst frá handtökunni.

Konan hafi verið látin laus að lokinni skýrslutöku og frekari rannsókn á málinu.

Málið er rannsakað sem heimilisofbeldismál að sögn Bjarneyjar sem tekur enn fremur fram að maðurinn, sem einnig er á fimmtugsaldri, sé sambýlismaður konunnar. Hann er nú á batavegi og kominn úr lífshættu, að sögn lögreglu. Laganna verðir hafa nú tekið skýrslu af manninum.

Málið er enn til rannsóknar hjá lögreglunni en Bjarney segir að enginn annar hafi orðið vitni að meintri árás. Þá hafi engin börn verið í íbúðinni þegar atvikið átti sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×