Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KA - ÍBV 2-0 | Botnlið ÍBV áfram í stigaleit

Jón Ágúst Eyjólfsson skrifar
KA menn fagna marki í Krikanum fyrr í sumar.
KA menn fagna marki í Krikanum fyrr í sumar. vísir/bára

KA vann 2-0 sigur á ÍBV í fimmtu umferð Pepsi Max-deildar karla er liðin mættust á Greifavellinum á Akureyri.

Leikur KA og ÍBV í sjöttu umferð Pepsi Max deildar karla virtist ekki ætla í sögubækurnar fyrir fjör og skemmtanagildi. Hins vegar færðist fjör í leika þegar stundarfjórðungur lifði leiks og fór svo að KA menn hirtu öll stigin sem í boði voru. Lokatölur 2 – 0 fyrir gulklædda heimamenn.

Fyrri hálfleikurinn var ansi rólegur. Áhugaverðasta atvik upphafsmínútna leiksins var þegar dómari leiksins, Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, virtist fá einhvern slink á hnéið og lagðist í grasið. Leikurinn var stopp í tæplega átta mínútur meðan Vilhjálmur var skoðaður en að lokum fór það svo að hann gat ekki tekið frekari þátt í leiknum. Við flautunni tók Gylfi Már Sigurðsson, aðstoðardómari 1 en Eðvarð Eðvarðsson, varadómari, tók við flagginu af Gylfa.

Eina alvöru færi hálfleiksins kom á 39. mínútu. Þá náðu þeir Jonathan Glenn og Guðmundur Magnússon flottu þríhyrningsspili sín á milli og komst Glenn einn inn fyrir vörn KA manna en skotið var afleitt. Það vakti svo athygli þegar tilkynnt var um uppbótartímann en hann var aðeins fjórar mínútur. Sem er skrýtið þar sem það tók átta mínútur að hefja leik að nýju eftir að Vilhjálmur slasaðist.

Í síðari hálfleik var enn kominn nýr maður á flautuna. Sigurður Hjörtur Þrastarson leysti Gylfa af hólmi sem tók aftur við flagginu af Eðvarði. Leikurinn var í miklu jafnvægi framan af síðari hálfleiknum. Bæði lið komu sér í ákjósanlegar stöður en náðu ekki að gera sér mat úr því. Á 74. mínútu komst Steinþór Freyr Þorsteinsson einn inn á markteig ÍBV en á einhvern óútskýranlegan hátt tókst honum ekki að koma boltanum í netið.

Þetta færi Steinþórs var upphafið af ótrúlegum kafla í leiknum. Á 75. mínútu kemur téður Steinþór Freyr boltanum á Hallgrím Mar úti hægra megin. Hallgrímur finnur Daníel Hafsteinsson inn á teignum sem klárar af yfirvegun og kemur heimamönnum í forystu, 1 – 0.
Strax í kjölfarið gera KA menn breytingu. Sæþór Olgeirsson kemur af velli og í hans stað kom Nökkvi Þeyr Þórisson inn á. Hann var ekki lengi að láta til sín taka því hann kom boltanum í netið fjórum mínútum síðar. Daníel Hafsteinsson hafði þá leikið varnarmenn ÍBV grátt og rennt boltanum fyrir markið. Þar var Nökkvi Þeyr fyrstur á vettvang og skoraði. KA menn búnir að klára dæmið á þessum fimm mínútna kafla.

Tveimur mínútum síðar fengu KA menn svo vítaspyrnu. Títt nefndur Nökkvi Þeyr var þá tekinn niður og réttilega dæmd vítaspyrna. Hallgrímur Mar steig á punktinn en brást bogalistinn. Halldór Páll varði tiltölulega slaka spyrnu Hallgríms. Fátt markvert gerðist svo síðustu 10 mínútur leiksins og fór svo að heimamenn sigruðu lánlausa Eyjamenn 2 – 0.

Með sigrinum fara KA menn í níu stig og sitja sem stendur í fimmta sæti deildarinnar. Eyjamenn áfram með tvö stig á botni deildarinnar.

Hverjir stóðu upp úr?
Daníel Hafsteinsson átti stórgóðan leik á miðri miðjunni fyrir KA menn. Skoraði fyrra markið og lagði upp það síðara. Klárlega maður leiksins. Varamaðurinn Nökkvi Þeyr Þórisson gjörbreytti leiknum með sinni innkomu. Hraði hans nýttist KA vel og skilaði hann marki auk þess að fiska víti.

Hvað gerist næst?
Bæði lið spila í bikarnum í næstu viku. Eyjamenn mæta Fjölnismönnum úti í Eyjum en KA menn heimsækja Víking Reykjavík. Í næstu umferð Pepsi Max deildarinnar fara KA menn á Meistaravelli og mæta KR ingum en á sama tíma spilar lið ÍBV við nýliða ÍA á Hásteinsvelli.

Sveinn Þór Steingrímsson: Höldum í okkar gildi og taktík og uppskerum út frá því.

Sveinn Þór Steingrímsson, aðstoðarþjálfari KA, var að vonum ánægður með stigin þrjú sem hans menn höfðu af ÍBV á heimavelli í dag. „Þetta eru þrjú góð stig. Það er það sem við tökum fyrst og fremst út úr þessu. Við erum kannski ekki ánægðir með allt í leiknum. Það hvernig við spilum og annað, auðvitað hafði vindurinn einhver áhrif á okkar uppspil en það sem við tökum út úr þessu er bara frábær samstaða, vinnusemi og við gáfumst náttúrulega aldrei upp“, sagði Sveinn Þór og bætti því við að hans menn hafi átt flotta spilkafla undir lokin ,,eins og mörkin gefa til kynna.“

Leikurinn var rólegur framan af en leikur KA manna gjörbreyttist með innkomu leikmanna af varamannabekknum. Var um áherslubreytingar að ræða?

„Við gerum þarna skiptingar þar sem við erum að sækja í að fá meiri hlaup bakvið línu en þetta er fyrst og fremst bara góð vinnusemi í liðinu. Þó að fyrstu 70 hafi ekki verið frábærar þá bara höldum við áfram og höldum í okkar gildi og taktík og uppskerum út frá því“, sagði Sveinn Þór.

Það vantaði þrjá leikmenn í lið KA manna sem voru í byrjunarliði í síðustu umferð. Spurður út í þessa þrjá leikmenn hafði Sveinn Þór þetta að segja:
„Jú jú, þeir eru meiddir en þeir eru bara allir að koma til. Þannig að við búumst við þeim bara fljótlega. Ekki kannski í bikarleiknum á þriðjudaginn en allavega mjög fljótlega.“

KA menn hafa fengið níu stig úr fyrstu sex umferðum deildarinnar. Aðspurður sagði Sveinn menn á heildina litið sátta við stöðu mála en bætti þó við að ,,auðvitað hefðum við viljað, út frá heildarframmistöðu í þessum leikjum þá hefðum við viljað vera með aðeins fleiri stig og fannst okkur eiga það skilið en ég held að við getum verið sáttir með níu stig út frá því sem komið er.“

Pedro Hipólito: Töpum leiknum á fimm mínútna kafla

„Þetta er ekki auðvelt. Miðað við spilamennskuna fyrstu 70 – 75 mínúturnar stjórnum við leiknum og sköpum okkur betri færi. Við töpum svo leiknum á fimm mínútna kafla og eftir fyrsta markið missum við allt jafnvægi úr okkar leik.“
Þetta voru fyrstu viðbrögð Pedro Hipólito, þjálfara ÍBV, í leikslok eftir tap lærisveina hans á Akureyri í dag. Hann bætti því við að „þetta er eðlilegt fyrir lið í okkar stöðu, með brotið sjálfstraust, þarf ekki nema einn svona kafla til að klára leiki, eins og var raunin í dag þegar þeir skora tvö mörk.“

Pedro segir sína menn þurfa að vera fyrri til að skora í svona leikjum þar sem sjálfstraustið er ekki mikið. „Við fáum fullt af færum til að skora, til að komast yfir. Við þurfum að nýta þessi færi og við þurfum sigur til að ýta undir sjálfstraust leikmanna og bæta liðsandann,“ bætti hann svo við. Hann sagði jafnframt þetta hafa einkennt leik sinna í manna í nokkrum leikjum í sumar og telur fyrir víst að niðurstaða leikja hafi orðið önnur ef hans menn hefðu einfaldlega verið fyrri til að skora en andstæðingurinn.

Þegar Pedro er inntur eftir því hvað þurfi að gerast til að hans menn fari að koma boltanum yfir línuna segir hann þá einfaldlega þurfa að halda áfram. „Það þurfa allir að vera tilbúnir í að skora og við þurfum að halda áfram að trúa á okkar lið og framherjana okkar.“

Uppskera Eyjamanna hefur verið rýr það sem af er sumri og sitja þeir á botni deildarinnar með tvö stig. En er krísa í eyjum?

„Ef þú horfir á úrslitin má segja það en ef þú skoðar hvað við leggjum á okkur á hverjum degi til að ná í sigur þá segi ég nei. Við höldum andanum og trúnni og þurfum þennan sigur til að auka sjálfstraustið enn frekar,“ sagði Pedro að lokum.

Daníel Hafsteinsson: Þetta gekk bara upp í dag.

„Geggjað að ná í annan sigurinn í röð. Alltaf gott að tengja tvo sigra saman. Ég er bara virkilega ánægður,“ voru fyrstu viðbrögð Daníels Hafsteinssonar eftir sigurinn á ÍBV.

Daníel átti stórgóðan leik á miðjunni en undirbjó hann sig á annan máta en vanalega í dag?
„Nei eiginlega ekki, alltaf bara sama gamla. Síðan gekk þetta bara upp í dag,“ sagði hógvær Daníel.

Fjarvera lykilmanna virtist ekki hafa teljandi áhrif á KA menn í dag og sagði Daníel einfaldlega að maður kæmi í manns stað. „Það stóðu sig allir ótrúlega vel í dag. Samstaða, vinnusemi og jákvæðni eru gildin okkar og við fórum vel eftir þeim núna,“ bætti hann við.

Spurður út í framhaldið og hvort KA menn væru nú farnir að horfa á liðin fyrir ofan sig í töflunni og stefna þangað stóð ekki á svari.
„Eins og ég segi er fínt að taka tvo sigra í röð. Ég veit ekki hvar við erum núna í töflunni en við höldum bara áfram að sækja stig og sjáum hvar það skilar okkur,“ sagði Daníel.

Næsti leikur KA manna er bikarleikur gegn Víkingum og sagði Daníel að þar ætluðu KA menn sér að sjálfsögðu sigur og bætti við að bikarinn væri „styðsta leiðin að Evrópu,“ sagði Daníel kátur í bragði.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.