Sport

Hilmar Örn vann sterkt mót í Bandaríkjunum

Hjörvar Ólafsson skrifar
Hilmar Örn Jónsson.
Hilmar Örn Jónsson. vísir/andri marinó
Hilmar Örn Jónsson, nýbakaður Íslandsmethafi í sleggjukasti, varð um helgina ACC-svæðismeistari í Bandaríkjunum. Hilmar Örn stundar nám og keppir fyrir University of Virginia. Hann hefur átt frábært keppnistímabil og í lok apríl bætti hann ellefu ára gamalt Íslandsmet í sleggjukasti.

Hilmar átti flotta kastseríu í gær og átti fjögur köst yfir 72 metra. Það lengsta var 72,84 metrar. Hilmar varð ACC-svæðismeistari fjórða árið í röð og varð sá fyrsti í sögu svæðisins til að vera svæðismeistari í sleggjukasti öll fjögur keppnisárin sín. Aðeins hefur einum öðrum tekist það í öðrum greinum.

Íþróttamálum í Bandaríkjunum er þannig háttað að landinu er skipt upp í svæði. Skóli Hilmars er hluti af Atlantic Coast Conference sem samanstendur af 15 sterkum skólum. Með góðum árangri þar komast einstaklingar í fjórðungsundankeppni þar sem 64 bestu úr hverri grein keppa um að komast í lokameistaramótið. Tólf efstu úr fjórðungsundankeppninni komast á það mót þar sem sigurvegari mótsins verður bandarískur meistari.

Hilmar er því kominn áfram í fjórðungsundankeppnina. Ef vel tekst til hjá honum þar mun hann keppa á lokameistaramótinu sem fer fram í byrjun júní. Til að eiga möguleika á titli þarf heimsklassa árangur.

Íslandsmet Hilmars er 75,26 metrar og sem stendur er hann í þrettánda sæti heimslistans árið 2019. Þetta er besta tímabil Hilmars Arnar frá upphafi og því verður spennandi að fylgjast með honum á komandi vikum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×