Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: HK - ÍBV 2-0 | Fyrsti sigur HK-inga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásgeir Marteinsson skoraði og lagði upp gegn ÍBV.
Ásgeir Marteinsson skoraði og lagði upp gegn ÍBV. vísir/bára

HK vann sinn fyrsta sigur í Pepsi Max-deild karla þegar liðið lagði ÍBV að velli, 2-0, í Kórnum í kvöld. Þetta var í fyrsta sinn sem þessi félög mætast í deildarleik í karlaflokki.

Eftir ágæta byrjun ÍBV komst HK yfir á 14. mínútu þegar Birkir Valur Jónsson skallaði hornspyrnu Ásgeirs Marteinssonar í netið. Þetta var fyrsta mark Birkis Vals í efstu deild á ferlinum.

Á 28. mínútu kom vendipunktur leiksins þegar Guðmundur Magnússon, framherji ÍBV, fékk rautt spjald fyrir brot á Ólafi Erni Eyjólfssyni.

Staða Eyjamanna versnaði enn frekar þegar Ásgeir kom HK-ingum í 2-0 í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Í seinni hálfleik voru heimamenn miklu sterkari aðilinn og hefðu hæglega getað bætt við mörkum. Það gerðist þó ekki og leikar fóru 2-0.

Með sigrinum komst HK upp í 9. sæti deildarinnar. ÍBV er áfram á botninum.

Af hverju vann HK?
Líkt og gegn Breiðabliki nýtti HK hornspynur sínar vel. Ein slík skilaði marki á 14. mínútu sem kom eilítið gegn gangi leiksins.

Róður Eyjamanna þyngdist til muna eftir rauða spjaldið og eftir mark Ásgeirs var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda. Fyrir utan mark sem var dæmt af vegna rangstöðu gerði ÍBV ekkert í seinni hálfleik og var heppið að fá ekki á sig fleiri mörk.

Hverjir stóðu upp úr?
Ásgeir skoraði og lagði upp í leiknum og var besti maður vallarins. Hann hefur komið með beinum hætti að öllum fjórum mörkum HK í deildinni á tímabilinu. Hornspyrnur hans, hvort sem hann tekur þær með hægri eða vinstri fæti, eru baneitraðar.

Birkir Valur skilaði einnig marki og stoðsendingu og hefur sýnt að hann er tilbúinn í átökin í efstu deild og rúmlega það. Ólafur Örn Eyjólfsson og Atli Arnarsson áttu einnig fínan leik á miðju HK.

Hvað gekk illa?
Eftir ágæta byrjun gekk Eyjamönnum allt í óhag eftir fyrsta markið. Í seinni hálfleik var ekkert að frétta hjá gestunum sem voru aldrei líklegir til að koma til baka.

HK-ingar fengu færin til að skora fleiri mörk í seinni hálfleik en fóru illa með þau. Mána Austmann Hilmarssyni og Brynjari Jónassyni voru sérstaklega mislagðar fætur upp við markið.

Hvað gerist næst?
Á mánudaginn fara HK-ingar í Vesturbæ Reykjavíkur og mæta þar KR-ingum. Á sunnudaginn fá Eyjamenn Víkinga í heimsókn en þar mætast einu sigurlausu lið deildarinnar.

Brynjar Björn og hans menn eru komnir upp úr fallsæti. mynd/hk

Brynjar Björn: Allt gekk vel
Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, var að vonum sáttur við fyrsta sigur liðsins í efstu deild í ellefu ár.

„Mér fannst þetta sanngjarnt. Við spiluðum vel í dag. Auðvitað breytti það gangi leiksins þegar þeir misstu mann út af en þá vorum við búnir að skora. Mér fannst við vera með góða stjórn á leiknum,“ sagði Brynjar.

Hann hafði ekki yfir miklu að kvarta eftir leik enda sigur hans manna öruggur.

„Á heildina litið gekk allt vel. Spilið gekk vel sem og að skapa færi. Við hefðum getað skorað 2-3 mörk í viðbót,“ sagði Brynjar.

„Varnarleikurinn var öruggur. Við fengum fá sem engin færi á okkur en við réðum vel við sóknarleik þeirra.“

Aðspurður segist Brynjar vera sáttur með byrjunina á tímabilinu. HK-ingar eru með fjögur stig í Pepsi Max-deildinni þrátt fyrir erfiða leiki í fyrstu umferðunum.

„Við horfum ekkert til baka og erum ánægðir með þrjú stig í dag og höldum áfram. Það er gott að vera komnir með fyrsta sigrinum,“ sagði Brynjar að endingu.

Pedro bíður enn eftir sínum fyrsta deildarsigri sem þjálfari ÍBV. vísir/bára

Pedro: Eflaust munu allir gagnrýna okkur
„Þetta var erfiður leikur. Við byrjuðum vel og áttum fyrsta færið. En svo fengum við á okkur mark eftir fyrstu hornspyrnu HK,“ sagði Pedro Hipolito, þjálfari ÍBV, eftir tapið fyrir HK í Kórnum í kvöld.

Eyjamenn lentu undir á 14. mínútu. Fjórtán mínútum síðar fékk Guðmundur Magnússon rautt spjald.

„Við brugðumst ágætlega við en síðan fékk Gummi rautt. Frá bekknum séð virtist hann fara í boltann. Eftir það var þetta erfitt og enn erfiðara eftir annað mark HK,“ sagði Pedro.

„Núna er auðvelt að gagnrýna en mér fannst strákarnir sýna vilja til að halda áfram og gefast ekki upp. Það sýndi að við höfum alvöru menn. Eflaust munu allir gagnrýna okkur. Það er eðlilegt og svona er boltinn. En strákarnir sýndu mikla liðsheild og þeir munu berjast allt til loka.“

Pedro fannst sínir menn vera sterkari aðilinn meðan það var jafnt í liðum.

„Við byrjuðum betur en HK en fengum á okkur heimskulegt mark. Við vitum að þeir framkvæma hornin alltaf svona. Við reyndum en þetta varð allt annar leikur eftir rauða spjaldið. Ég hef trú á strákunum þótt við séum ekki sáttir með byrjunina á tímabilinu,“ sagði Pedro en Eyjamenn hafa aðeins náð í eitt stig af tólf mögulegum í Pepsi Max-deildinni.

Eyjamenn sýndu ekki mikinn sóknarhug í seinni hálfleiknum en skoruðu þó mark sem fékk ekki að standa.

„Við skoruðum en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Þetta er sami dómari [Egill Arnar Sigurþórsson] og gaf okkur ekki augljóst víti í stöðunni 0-0 í fyrsta leiknum okkar. Stundum er maður óheppinn. En stundum breytist það og gerir það líklega í næsta leik,“ sagði Pedro að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.