Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Stjarnan 0-2 KA | Frábær sigur KA

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
vísir/bára
Stjörnumenn tóku á móti KA-mönnum í dag á Samsung vellinum í Garðabæ. Eftir að staðan hafði verið 0-0 í hálfleik skoruðu KA-menn tvö mörk með stuttu millibili og héldu því út leikinn og sigruðu Stjörnumenn 2-0. 

 

Stjörnumenn byrjuðu töluvert betur í dag og sóttu stíft að marki KA. Þeir komu boltanum í netið eftir 7 mínútur en markið var því miður dæmt af en þeir áttu þá fyrirgjöf inn í teiginn sem endaði á því að Guðmundur Steinn Hafsteinsson kom boltanum inn en því miður fór boltinn útaf í fyrirgjöfinni.

 

Stjarnan hélt áfram að þjarma að KA og Hilmar Árni Halldórsson átti góðan sprett rétt fyrir lok fyrri hálfleiks sem endaði á góðu skoti sem fór í stöngina. Þetta var lokafæri hálfleiksins og staðan því 0-0 í hálfleik.

 

KA þurfti að gera breytingu á liði sínu rétt fyrir hálfleikinn en Daníel Hafsteinsson fór útaf meiddur. Þeir gerðu síðan aðra skiptingu í hálfleik en þá þurfti Andri Fannar Stefánsson að ljúka leik vegna meiðsla. Þeir hófu hinsvegar seinni hálfleikinn af miklum krafti og það skilaði sínu.

 

Gestirnir komust yfir eftir 49 mínútur þegar varamaðurinn Ólafur Aron Pétursson renndi boltanum í autt mark eftir misheppnað úthlaup Haraldar Björnssonar í marki Stjörnunnar. Algjört klúður hjá Haraldi og staðan orðin 1-0 fyrir KA.

 

Þeir bættu við öðru markinu stuttu síðar en þá áttu Elfar Árni Aðalsteinsson og Ýmir Már Geirsson frábæran samleik sem endaði með því að Elfar Árni var kominn einn á móti Haraldi, hann renndi boltanum örugglega í markið og allt í einu orðið 2-0 fyrir KA.

 

KA lögðust aftar á völlinn og freistuðu þess að halda markinu hreinu það sem eftir var. Rúnar Páll gerði þrefalda skiptingu þegar 65 mínútur voru liðnar til að reyna fríska upp á leik sinna manna. Það gekk hinsvegar ekki og KA-menn fögnuðu dýrmætum og frábærum 2-0 sigri í Garðabænum.

 

Af hverju vann KA?

 

KA spiluðu þéttan varnarleik og voru með marksúlurnar með sér í liði í dag. Þeir nýttu sér mistök Stjörnumanna og komust í góða 2 marka forystu sem þeir létu aldrei af hendi. Virkilega góð frammistaða hjá KA.

 

Hverjir stóðu upp úr?

 

Elfar Árni Aðalsteinsson var öflugur í liði gestanna. Hann vann vel fyrir liðið og nýtti þetta eina færi sem hann fékk. Hallgrímur Mar skilaði sínu að vanda og Torfi Timoteus var öflugur.

 

Hjá heimamönnum var Guðjón Baldvinsson bestur en hann átti nokkur fín færi og var óheppinn í dag.

 

Hvað gekk illa?

 

Varnarleikur Stjörnunnar var ekki góður í þessum 2 mörkum. Haraldur verður að taka á sig fyrra markið en hann átti slæmt úthlaup sem gaf markið. Vörnin var síðan illa leikin í öðru markinu. 

 

Hvað gerist næst?

 

KA tekur á móti ÍBV í næstu umferð á Akureyri þann 25.maí en Stjörnumenn fara upp á Skaga og mæta þar heimamönnum í ÍA daginn eftir eða þann 26.maí.

 

Óli Stefán: Ákváðum að einbeita okkur að okkur sjálfum

Óli Stefán Flóventsson þjálfari KA var sáttur með sína menn eftir sigurinn gegn Stjörnunni í dag. Hann sagði að frammistaðan hafi verið góð og að það hafi verið gott að fá 3 stig að auki.

 

„Frammistaðan var hörkugóð og loksins skilaði hún einhverju til baka. Við erum búnir að vera spila ágætlega þó ekki fullkomlega en við settum góða frammistöðu í dag og vorum þéttir og flottir og áttum flottar rispur. Fengum 2 færi sem við klárum og ég er mjög sáttur við það.”

 

Hann sagði að þetta væri mjög gott í ljósi þess hversu svekkjandi síðustu 2 leikir hafa farið.

 

„Við spjölluðum vel eftir síðasta leik og við ákváðum að vera ekkert að leika nein fórnarlömb og allir á móti okkur. Við ýttum því frá okkur og fórum að einbeita okkur að sjálfum okkur og hvað við gætum gert betur.”

 

„Við tókum skref áfram í dag og hlutirnir féllu með okkur og ég er líka svo ánægður með hérna fyrir norðan hversu sterkur kjarni er bakvið okkur og hingað kemur fullt af fólki og styður við strákana þrátt fyrir erfið úrslit sem sýnir að klúbburinn er sterkur og við getum gert góða hluti ef við höldum svona áfram.”

 

Daníel Hafsteinsson fór meiddur útaf undir fyrri hálfleik og KA-menn lentu í fleiri vandræðum vegna meiðsla. Óli útskýrði að hann hefði fengið högg á rifbeinin og átt í erfiðleikum með að anda.

 

„Hann fékk högg á rifbeinið og missti andann. Við óttuðumst að það væri rifbeinsbrot en það lítur betur út og svo missum við Andra Fannar líka, hann stífnaði upp og Elfar líka í seinni hálfleiknum og allar skiptingarnar voru vegna meiðsla.”

 

„En við erum með stóran og breiðan hóp eins og t.d. með Ólaf Aron hann kemur inn á eins og kóngur, er að spila sínar fyrstu mínútur í sumar og gerir gott mark og hann reið í rauninni baggamuninn fyrir okkur.”

 

Óli Stefán sagði að lokum að hann væri gífurlega ánægður með stuðninginn bæði á heimavelli og hvernig þeir mæta í útileikina.

 

„Þeir eru að koma að norðan! Við erum með svo sterkan kjarna. Yfir þúsund manns á leikjunum fyrir norðan og svo kemur þessi kjarni og við finnum fyrir þessu, það er svo gott að hafa þetta og ég er rosalega ánægður með Schiöttarana í dag,” sagði Óli Stefán að lokum.

 



Rúnar Páll: Þvílíkt einbeitingarleysi í þessum mörkum

Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar var svekktur eftir tap sinna manna gegn KA í dag. Hann sagði einbeitingarleysi hafa orsakað tapið í dag.

 

„Mjög svekkjandi. Við missum þennan leik niður á einhverjum 10 mínútna kafla og það er hrikalega dapurt hjá okkur og þetta er þvílíkt einbeitingarleysi í þessum mörkum. Við ráðum nánast öllum leiknum og við missum einbeitinguna, ég skil eiginlega ekki hvað gerist í þessum 2 mörkum en það gerir það að verkum að við töpum hér í dag.”

 

„Við vorum með gífurlegan sóknarþunga bæði í fyrri hálfleik og seinni hálfleik á KA-mönnum sem vörðust gríðarlega vel. En við þurfum að nýta færin okkar betur.”

 

Hann segir það visst áhyggjuefni hjá sínum mönnum þessi sofandaháttur í byrjun seinni hálfleiks.

 

„Já þetta er áhyggjuefni. Við töluðum um það í hálfleiknum að koma klárir en við stjórnum leiknum og þegar lið stjórna leikjum þá er oft hætta að fá á sig mörk úr skyndisóknum þegar menn eru værukærir og það er það sem gerðist hjá okkur í dag.”

 

Það gekk lítið upp hjá Stjörnumönnum en þeir settu boltann tvisvar í slánna og einu sinni í stöngina. Rúnar var sammála því að þetta hafi verið óheppnisdagur og lítið gengið upp en sagði að menn þurfa bara að fara upp með hausinn og gera betur í næsta leik gegn Skagamönnum.

 

„Eigum við ekki bara að segja það? Neinei nú er það bara upp með hausinn og næsti leikur. Við töpum eins og önnur lið og við þurfum bara að sjá hvernig við tökumst á við það. Erfiður leikur framundan í næsta leik gegn öflugu Skagaliði,” sagði Rúnar Páll að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira