Innlent

Mark­miðið að veita eins góða þjónustu og hægt er í fyrstu sporum barnanna hér á landi

Kristín Ýr Gunnarsdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Stoðdeildin verður starfrækt í Háaleitisskóla.
Stoðdeildin verður starfrækt í Háaleitisskóla. vísir/vilhelm
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, segir markmiðið að veita börnum hælisleitenda eins góða þjónustu og kostur er í fyrstu sporum þeirra hér á landi með sérstakri stoðdeild fyrir börnin sem taka mun til starfa í Háaleitisskóla í ágúst næstkomandi.

Upphaflega stóð til að stoðdeildin yrði starfrækt í Vogaskóla en stjórnendur í þeim skóla lýstu efasemdum sínum með fyrirkomulagið.

Helgi segir að verkefnið hafi aldrei farið formlega í Vogaskóla heldur hafi borgin unnið að  því undanfarnar vikur að skoða hvaða valkostir kæmu til greina.

Það varð úr að deildin verði í Háaleitisskóla enda sé skólinn mjög miðsvæðis, vel tengdur við samgöngur og íþróttafélagið Fram í næsta nágrenni sem mun opna dyr sínar fyrir börnunum.

„Eins og oft er skiptir miklu máli að skapa samhengi á milli skóla og frístundastarfs og í þessu tilfelli íþrótta,“ segir Helgi.

Spurður út í það hvort um sé að ræða börn sem stoppi stutt við hér á landi, en það er sérstaklega tekið fram í greinargerð með tillögu um stoðdeildina að búast megi við því að stór hluti barnanna staldri stutt við í íslensku samfélagi, segir Helgi ekki hægt að vita það.

„Það eru aðrir sem ráða því. En við erum með það markmið í huga að veita eins góða þjónustu eins og kostur er í þessum fyrstu sporum þeirra hér á landi,“ segir Helgi.


Tengdar fréttir

Börn hælis­leit­enda munu stunda nám í Háa­leitis­skóla

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum á þriðjudaginn í síðustu viku að frá og með næsta hausti verður starfrækt sérstök stoðdeild í Háaleitisskóla – Álftamýri fyrir börn hælisleitenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×