Sport

Biles hættir eftir Tókýó 2020

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Simone Biles er stærsta stjarna fimleikaheimsins
Simone Biles er stærsta stjarna fimleikaheimsins vísir/getty
Simone Biles ætlar að hætta keppni í fimleikum eftir Ólympíuleikana í Tókýó árið 2020.

Biles er aðeins 22 ára gömul, en hefur þó verið ein besta fimleikakona heims síðustu ár. Hún varð í fyrra fyrsta konan til þess að vinna fjóra heimsmeistaratitla í fjölþraut í áhaldafimleikum.

„Það er klárlega planið að Ólympíuleikarnir í Tókýó verði mínir síðustu,“ sagði Biles við Sky Sports.

„Mér finnst eins og líkami minn sé að detta í sundur. Það sést kannski ekki en mér líður þannig oft á tíðum.“

„Ég er eiginlega alltaf með einhverja verki, en mér finnst það eiginlega eiga að vera þannig því ef þú ert ekki með verki þá finnst þér þú ættir að vera að gera eitthvað meira.“

Á síðustu Ólympíuleikum vann bandaríska liðið, með Biles innan borðs, gullverðlaun í fjölþraut og Biles vann einstaklingsverðlaunin í fjölþrautinni. Hún vann þar einnig keppni á gólfi og stökki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×