Sport

Stefnir á bandarísku mótaröðina

Hjörvar Ólafsson skrifar
Arnar Davíð Jónsson.
Arnar Davíð Jónsson. mynd/keilusamband íslands
Arnar Davíð Jónsson keilari stendur vel að vígi á evrópsku mótaröðinni í keilu þegar fimm mót af 14 hafa verið spiluð. Arnar Davíð varð í fimmta sæti á móti sem fram fór í Dream Bowl Palace í München í Þýskalandi um síðustu helgi og tyllti hann sér í efsta sæti á mótaröðinni. Að þessu sinni kepptu um það bil 400 keppendur víðs vegar að úr heiminum á mótinu.

„Ég er mjög ánægður með frammistöðu mína á tímabilinu og ég hef verið að spila mun stöðugri leik en ég bjóst við sjálfur. Ég flutti til Svíþjóðar í ágúst á síðasta ári og get einbeitt mér algjörlega að því að spila keilu hérna. Það er rík hefð fyrir keilu hérna og þetta er ein af sterkari þjóðum í Evrópu í greininni. Ég vinn í keilusalnum við ýmis viðvik tengd keilunni og æfi svo daglega. Það skilar sér í bættri frammistöðu,“ segir hann um tímabilið.

Mótið sem Arnar Davíð lék á um helgina ber nafnið Brunswick Euro Challenge og stærsta keilumót ársins á Evróputúrnum. Þarna koma saman sterkustu keiluspilarar Evrópu en einungis ameríska mótaröðin þar sem bestu atvinnumenn heims koma saman er sterkari. Þangað stefnir Arnar Davíð á að keppa á næsta tímabili.

Arnar Davíð sem keppir með sænska liðinu Höganas tryggir sér sæti í Master-keppninni ef hann heldur sér í efsta sæti á mótaröðinni. Þetta í fyrsta sinn sem íslenskur keilari nær þeim áfanga að tróna á toppnum.

„Ég hef spilað með Höganas í fjögur ár en ég lék með liðinu á meðan ég bjó í Osló í Noregi. Þá tók ég bara rútuna í sex tíma í hvern deildarleik og það sýnir kannski hversu mikinn metnað ég hef fyrir því að ná langt í greininni. Við erum að berjast fyrir því að komast úr B-deildinni upp í þá efstu en liðið hefur verið að reyna það í sex ár. Vonandi tekst það í ár,“ segir Arnar um stöðu mála hjá sér.

Hann er að fylgja eftir frábærum endi á síðasta keppnistímabili en þá varð hann til að mynda fyrsti íslenski keilarinn til að vinna mót á evrópsku mótaröðinni þegar hann vann Óðinsvé International í Danmörku. Næsta mót á mótaröðinni verður um mánaðamótin júní og júlí í Madríd á Spáni og mótaröðinni lýkur svo í nóvember.

„Mig langar að komast á amerísku mótaröðina og ég tel það vel raunhæft. Ég er alveg á pari við þá keilara sem eru að spila þar þegar ég næ mínum besta leik. Þegar evrópsku mótaröðinni lýkur fer ég að einbeita mér að því að komast á meðal þeirra bestu í Bandaríkjunum,“ segir þessi metnaðarfulli keilari um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×