Sport

Gamli síminn gæti orðið að verðlaunapening á ÓL 2020

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Verðlaun á Ólympíuleikum.
Verðlaun á Ólympíuleikum. Getty/Simon Bruty
Verðlaunapeningarnir á Ólympíuleikunum í Tókýó á næsta ári munu hafa átt sér sína fortíð áður en þeir urðu að gull-, silfur- og bronspeningum besta íþróttafólks heimsins.

Skipuleggjendur sumarólympíuleikanna 2020 hafa lengi staðið fyrir söfnun á gömlum raftækjum en þar á meðal eru úreldir snjallasímar og ferðatölvur sem hafa lifað sinn tíma.

Markmiðið var að safna 30,3 kílóum af gulli, 4100 kílóum af silfri og 2700 kílóum af bronsi.

Það mun síðan koma í ljós seinna á þessu ári hvernig umræddir verðlaunapeningar á ÓL 2020 munu líta út.





Best hefur gengið að safna bronsinu því markmiðinu þar var náð í júní síðastliðnum. Skipuleggjendur höfðu í október náð í 90 prósent af gullinu sem þarf til og 85 prósent af silfrinu.

Það lítur allt út fyrir að búið verði að safna því sem á vantar af gulli og silfri í mars.

Umræddum endurunnum raftækjum og símum var safnað meðal japönsku þjóðarinnar en einnig var leitað til fyrirtækja og iðnaðarins.

Til að ná í þetta magn af gulli, silfri og bronsi þurfti að taka á móti 47488 tonnum af gömlum raftækjum auk þess sem almenningur hafði gefið söfnuninni fimm milljónir úreldra síma.

Á síðustu sumarólympíuleikum í Ríó þá voru verðlaunapeningarnir að 30 prósent hluta úr endurunnum efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×