Sport

Tíu var eiginlega of lág einkunn fyrir þessa fullkomnu gólfæfingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katelyn Ohashi.
Katelyn Ohashi. Mynd/UCLA Gymnastics
Bandaríska fimleikakonan Katelyn Ohashi bauð upp á fullkomna gólfæfingu í keppni með fimleikaliði UCLA háskólans um helgina og það er ekkert skrýtið að æfing hennar sé komin á flug á samfélagsmiðlum.

Hafi einhvern tímann verið ástæða til að gefa fimleikakonu meira en tíu fyrir gólfæfingar þá var það í tilfelli Katelyn Ohashi á laugardaginn.

Það er ekki nóg með að Katelyn Ohashi gerði mjög erfiðar æfingar upp á tíu þá gerði hún það um leið og hún dansaði við smelli eins og „September“ með Earth, Wind and Fire, „I Want You Back“ með Jackson 5 og „The Way You Make Me Feel“ með Michael Jackson.

Ohashi var í miklu stuði og heillaði áhorfendurna upp úr skónum sem sáu Katelyn Ohashi hoppa á milli mjög krefjandi æfinga og innilega dansspora án þess að klikka einu sinni.

Æfingu Katelyn Ohashi má sjá hér fyrir neðan en hana verða allir að sjá.





Það fylgir sögunni að Katelyn Ohashi fékk að sjálfsögðu tíu fyrir æfinguna hér fyrir ofan.

Árið 2018 deildi Katelyn Ohashi bandaríska háskólameistaratitlinum í æfingum á gólfi með Maggie Nichols en það er erfitt að sjá einhverja aðra halda í við hana þegar úrslitin ráðast í vor.

Katelyn Ohashi er 21 árs gömul og kemur frá Seattle í Washington fylki. Hún er á sínu lokaári í UCLA háskólanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×