Enski boltinn

Warnock ósáttur við Liverpool og Clyne

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Clyne lék sinn fyrsta leik fyrir Bournemouth í dag.
Clyne lék sinn fyrsta leik fyrir Bournemouth í dag. vísir/getty
Neil Warnock, stjóri Cardiff, er svekktur að sjá Nathaniel Clyne vera genginn til liðs við Bournemouth en hann taldi sig viss um að Clyne myndi ganga í raðir Cardiff í janúarglugganum.

Clyne braut sér leið inn í aðallið Crystal Palace sem ungur leikmaður undir stjórn Warnock og hafði Warnock þá von í brjósti að þeir myndu endurnýja kynnin nú þegar Liverpool vildi losa sig við bakvörðinn.

„Ég var svekktur við Nathaniel Clyne. Ég gaf honum fyrsta leikinn í meistaraflokki. Ég er ekki bara svekktur við hann heldur líka við Liverpool að hafa ekki látið mig vita,“ segir Warnock.

Warnock vill meina að það hafi komið í bakið á honum að ætla að fara heiðarlega að félagaskiptunum.

„Þeir lofuðu mér að hann yrði minn leikmaður í þessari viku en svo sé ég þetta í sjónvarpinu. Þetta er til skammar að mínu mati.“

„Ég hefði kannski átt að tala ólöglega við hann. Í staðinn gerði ég allt rétt og svo kemur Bournemouth inn í dæmið. Ég reikna með að þetta hafi eitthvað með það að gera að þeir borguðu 19 milljónir punda fyrir Solanke. Það hefur líklega hjálpað þeim að fá Clyne,“ segir Warnock.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×