Það er þó ekki aðeins textinn sem er eftirtektarverður, heldur geta glöggir hlustendur heyrt nið hinnar umdeildu Álftaneslaugar í laginu. „Þeirri sem setti bæjarfélagið á hausinn,“ eins og Jökull kemst að orði.
Lagið ber heitið „Lífið sem mig langar í (LSMLÍ)“ og er óhætt að segja að það beri nafn með rentu. „Eignast tvö-þrjú börn, senda stelpuna í Vindáshlíð“ og pallbílar með hestakerru aftan í, það er draumurinn að sögn Fannars Inga. Textann segist hann hafa samið fyrir tveimur árum, þegar hann var peningalaus einstæðingur á leigumarkaði.
Þannig eigi fólk til að setja sig á tímalínu og ætla sér að ná ákveðnum áföngum fyrir ákveðinn tíma, það ber árangurinn svo saman við næsta mann - til þess eins að verða fyrir vonbrigðum með sjálft sig.
Lagið sé hins vegar mótefni við því, það rætist úr öllum sem gefast ekki upp. „Þannig er þetta virðingarvottur við þá sem vita ekki hvað þeir vilja gera við líf sitt og eru að gera sitt besta - en um leið viðurkenning á því að enginn veit nákvæmlega hvernig hlutirnir þróast.“

Flokkur forvitnilegra nafna
Tilvist Hipsumhaps sé ekki síst grundvölluð á slíkri tilviljun. Þeir Fannar og Jökull kynntust í vinnuskólanum sumarið 2013, þar sem Fannar var flokkstjóri og fékk það hlutverk að skipa í flokkinn sinn. „Ég tók þá stefnu að velja aðeins þá sem voru með frumlegustu nöfnin. Jökull Breki var því sjálfvalinn, enda grunaði mig að maður með slíkt nafn gæti ekki verið annað en eitthvað atómskáld,“ segir Fannar.Flokksstjórinn reyndist nokkuð sannspár.
Á næstu árum átti Jökull eftir að láta til sín taka á listasviðinu. Hann innritaði sig í Verzló og tók tónlistarlífið þar með trompi; sigraði bæði tónsmíða- og söngvakeppnina, steig á svið í Nemendamótinu og dældi út slögurum með Rjómanum þar sem hann ýmist söng, samdi eða hljóðblandaði. Síðan þá hefur Jökull komið að ýmsum tónlistartengdum verkefnum, eins og báðum plötum hins vinsæla Flóna.
Jökull er þó ekki tilbúinn að fallast á að hann beri þetta samstarf á herðum sér. „Nei, alls ekki. Þetta er samvinnuverkefni," segir Jökull. Fannar hafi komið með hugmyndirnar sem Jökull segist síðan hafa útsett.
Töffaragrímur og viðkvæm hjörtu
„Ég hef alltaf haft háan staðal þegar kemur að hljóðblöndun og upptöku,“ segir Jökull og ekki þarf að leita langt til að finna sannanir þess. Sem fyrr segir má heyra niðinn í Álftaneslaug í fyrsta lagi Hipsumhaps, dýrari staðlar eru líklega vandfundnir. Að sama skapi segir Jökull að þeir hafi setið á laginu frá því síðasta sumar en nýtt tímann til að betrumbæta það og gera lagið útvarpsvænt. Nú sé það orðið aðgengilegt - Jökull fellst á að það sé jafnvel orðið Léttbylgjulegt.Jökull og Fannar hafa lagt grunninn að átta öðrum lögum sem þeir vonast til að geta smokrað út á næstu mánuðum. Þeir segja lögin þó ekkert endilega í anda „Lífsins sem þá langar í“ enda sæki þeir innblástur víða, allt frá Reiðmönnum vindanna til rafsveitarinnar XX, eins og nafnið Hipsumhaps gefur til kynna. Sé eitthvað sem sameini lögin þá eru það erfiðar tilfinningar, ástarævintýri sem fjari út, sem þeir reyni að vinna uppbyggilega úr með lagasmíðinni. Þeir, eins og svo margir aðrir tónlistarmenn, skarti töffaragrímum yfir viðkvæmum hjörtum.
Þeir segjast ætla að nýta næstu mánuði til að leggja lokahönd á lögin, með „ómetanlegri aðstoð“ frá Magnúsi Jóhanni Ragnarssyni, Arnari Inga Ingasyni og Styrmi Haukssyni, og vonast til að geta fylgt þeim eftir með „einlægum og geggjuðum útgáfutónleikum“ í haust. Framtíðin sé þó óráðin, eins og heyra má í frumburði Hipsumhaps. „Markmiðið er bara að sökka ekki,“ segir Fannar.