Innlent

Sam­þykktu að gera út­tekt á stjórn­sýslu barna­verndar­mála á Sel­tjarnar­nesi

Sylvía Hall skrifar
Í greinargerð með tillögunni segir að ástæða tillögunnar sé alvarlegar ásakanir í garð Barnaverndar Seltjarnarness.
Í greinargerð með tillögunni segir að ástæða tillögunnar sé alvarlegar ásakanir í garð Barnaverndar Seltjarnarness. Vísir/Vilhelm
Tillaga Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi um að gera úttekt á stjórnsýslu barnaverndarmála var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í dag. Lagt er til að stjórnsýsla síðustu fimmtán ára verði skoðuð.

Barnaverndarnefnd Seltjarnarness hefur verið í umræðunni undanfarnar vikur eftir að greint var frá máli sextán ára stúlku. Stúlkan er sögð hafa búið við verulega vanrækslu af hálfu móður sinnar alla ævi og segir hún nefndina hafa sópað fjölda ábendinga undir teppið.

Sjá einnig: Segir Barnaverndarnefnd Seltjarnarness hafa brugðist barni sem bjó við ofbeldiStúlkan og faðir hennar hafa kvartað til Barnaverndarstofu vegna málsins og segir lögmaður þeirra, Sævar Þór Jónsson, pólitísk tengsl hafa haft áhrif á úrvinnslu málsins. Móðuramma stúlkunnar hafi verið virk í nefndum á vegum bæjarins og gagnrýndi Sævar að barnaverndarnefndir væru pólitískt skipaðar.

Sigurþóra Bergsdóttir, fulltrúi í barnaverndarnefnd bæjarins og frambjóðandi Samfylkingarinnar, sagðist standa með stúlkunni. Samfylkingin lagði því til að óháður aðili yrði fenginn til þess að vinna stjórnsýsluúttekt á barnaverndarmálum síðustu fimmtán ára og skoðað yrði hvort vinnulag og ferlar hafi verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.

Í greinargerð með tillögunni segir að ástæða tillögunnar sé alvarlegar ásakanir í garð Barnaverndar Seltjarnarness. Nefndin sinni gríðarlega mikilvægu hlutverki í samfélaginu og traust verði að ríkja til starfa hennar og starfsmanna. Því sé nauðsynlegt að skoða og velta við öllum steinum varðandi vinnulag og ákvarðanir.

„Því leggur Samfylking Seltirninga til að fengin verði óháður aðili til að vinna stjórnsýsluúttekt á Barnaverndarnefnd Seltjarnarness, þar sem farið verður yfir ferla og vinnulag síðustu 15 ára, til að skoða hvort stjórnsýsla og vinnubrögð Barnaverndarnefndar og starfsmanna hennar hafi verið yfir gagnrýni hafin,“ segir í greinargerðinni.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.