Erlent

Maduro einangraður alþjóðlega þrátt fyrir kosningasigur

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Maduro tók ekki við mjög góðu búi en lengi getur vont versnað
Maduro tók ekki við mjög góðu búi en lengi getur vont versnað Vísir/EPA
Fjórtán ríki hafa kallað sendiherra sína heim frá Venesúela til að mótmæla framkvæmd forsetakosninga þar um helgina. Bandaríkjastjórn sakar forsetann um kosningasvindl og hefur tilkynnt nýjar viðskiptaþvinganir.

Nicolás Maduro hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan hann tók við embætti forseta Venesúela árið 2013. Hann hafði þá verið lærisveinn Hugo Chavez um nokkurn tíma en tók við hagkerfi sem riðaði til falls.

Maduro reyndi að viðhalda stefnu Chavez, sem byggði á sósíalisma en var mjög háð olíuútflutningi. Lágt olíuverð var meðal þess sem lagði hagkerfið endanlega í rúst og ekki sér fyrir enda efnahagshremminga í Venesúela.

Þrátt fyrir þær, og þrátt fyrir mikla ólgu í landinu, sóttist Maduro eftir endurkjöri í kosningum sem fóru fram í fyrradag. Stjórnarandstaðan hvatti almenning til að sitja heima og kjörsókn var umtalsvert minni en í síðustu kosningum. Maduro sigraði þó örugglega með tæp sjötíu prósent atkvæða.

Bandaríkjastjórn fordæmir kosningarnar, segir brögð hafa verið í tafli og hefur sett nýjar viðskiptaþvinganir á bæði einstaklinga og fyrirtæki í Venesúela vegna þessa. Þá hafa fjórtán ríki, þar á meðal Argentína, Brasilía og Kanada, kallað sendiherra sína heim frá Venesúela til að mótmæla skorti á lýðræði í landinu.

Leiðtogar Rússlands, Kúbu og Kína hafa hins vegar óskað Maduro til hamingju með endurkjörið og hvatt alþjóðasamfélagið til að virða úrslit kosninganna.


Tengdar fréttir

Maduro endurkjörinn forseti Venesúela

Fyrrum rútubílstjórinn og sitjandi forseti, Nicolas Maduro, hlaut í gær meirihluta atkvæða í forsetakosningum sem haldnar voru í Venesúela. Ekki eru allir sáttir með framkvæmd og niðurstöður kosninganna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.