Innlent

Segir óeðlilegt að engin lög gildi um lágmarksstærð sveitarfélaga

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Halldór Halldórsson, formaður Sambands sveitarfélaga.
Halldór Halldórsson, formaður Sambands sveitarfélaga. Vísir/Daníel
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir nauðsynlegt að setja lög um lágmarksstærð sveitarfélaga í ljósi lögheimilisflutninga í Árneshreppi sem Þjóðskrá Íslands hefur til sérstakrar skoðunar.

Nýlega fjölgaði íbúum í Árneshreppi á Ströndum, fámennasta sveitarfélagi landsins, um 38 prósent. Fjölgunin þótti óvænt, jafnvel grunsamleg, og þá sérstaklega fyrir þær sakir að afar stutt er til sveitastjórnarkosninga auk þess sem tekist er á um virkjun Hvalár.

Sjá einnig: Skráðu lögheimili á afskekktu eyðibýli í óþökk landeiganda

Halldór, sem var gestur útvarpsþáttarins Reykjavík síðdegis í dag, sagði málið mjög sérstakt en sambandið fylgist með gangi mála. Sjálfum var honum þó ekki kunnugt um hvort óskað hefði verið eftir ráðgjöf sambandsins í málinu.

Halldór sagði jafnframt að endurskoða þyrfti lög um lögheimili og lögheimilsflutninga.

„Þau eru nattúrulega gölluð, það er auðvitað galli á kerfinu að nú geti einhver flutt heim til þín, Þorgeir. Það gæti einhver núna setið við tölvuna og skráð sig á heimili þitt og þú veist ekki af því og hefur ekkert um það að segja. Svo er ekki víst að þú komist að því fyrr en eftir einhvern tíma.“

Þá sagði Halldór að sveitarstjórn Árneshrepps gæti ekki samþykkt kjörskrá sem svindl er á bak við. Þá taldi hann ekkert annað í boði en að taka umræddar nýjar skráningar út af kjörskránni.

Málið í Árneshreppi sýni enn fremur fram á nauðsyn þess að innleiða lög um lágmarksstærð sveitarfélaga. Engin slík lög eru í gildi í dag en í eldri lögum var lágmarksstærð miðuð við 50 íbúa.

„Svona lítið sveitarfélag, með tæplega 50 íbúa, þetta er auðvitað alltof lítið. Við þurfum að fara að taka ákvörðun í þessu landi um hver lágmarksstærð sveitarfélaga á að vera. Það er ekki eðlilegt að í sveitarstjórnarlögum sé engin lágmarksstærð.“

Hlusta má á viðtalið við Halldór Halldórsson í heild sinni í spilaranum að neðan.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.