Erlent

Bandarísk yfirvöld halda þúsundum barna í innflytjendaskýlum

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá mótmælum gegn innflytjendastefnu Bandaríkjastjórnar í sumar.
Frá mótmælum gegn innflytjendastefnu Bandaríkjastjórnar í sumar. Vísir/Getty
Aldrei hafa fleiri börn sem hafa komið ólöglega til landsins verið í haldi bandarískra yfirvalda en nú. Um 12.800 börn eru nú vistuð í skýlum alríkisstjórnarinnar og hefur fjöldinn fimmfaldast á einu ári þrátt fyrir að ríkisstjórn Donalds Trump forseta hafi sleppt hundruðum barna sem hún tók af foreldrum sínum.

New York Times segir að börnunum í haldi hafi ekki fjölgað vegna þess að fleiri reyni nú að komast inn í Bandaríkin ólöglega. Ástæðan sé sú að börnunum sé nú haldið lengur. Fjöldinn þýði að mörg skýli alríkisstjórnarinnar séu nú við það að vera full og það setji álag á bæði börnin og kerfið sem annast þau. Lítið er sagt þurfa til að skýlin verði orðin yfirfull.

Áður hefði fleiri börn verið leyst úr haldi og þau falin fjölskyldum eða öðrum aðstandendum í Bandaríkjunum á meðan þau bíða eftir að innflytjendadómstólar fjalli um mál þeirra. Ríkisstjórn Trump hefur hins vegar gengið hart fram gegn fólki sem kemur ólöglega til landsins. Það er sagt hafa leitt til þess að ættingjar og fjölskylduvinir barnanna í Bandaríkjunum veigri sér við því að gefa sig fram og taka við þeim.

Þá hafa breytingar sem stjórnvöld hafa gert á ferlinu þar sem börnum er sleppt í hendur aðstandenda hægt á því. Þeir ættingjar og vinir sem eru tilbúnir að taka við börnum þurfa jafnvel að bíða mánuðum saman eftir að yfirvöld meti þá.

Börn skilin frá foreldrum án samráðs við þá sem áttu að taka við þeim

Flest barnanna hafa komið ein yfir landamærin, oft táningar frá Mið-Ameríku. Þau eru vistuð í um hundrað skýlum um öll Bandaríkin. Þrátt fyrir tilraunir Trump-stjórnarinnar til þess að fæla fólk frá því að reyna að komast ólöglega til landsins hefur fjöldi barna sem koma yfir landamærin svo gott sem staðið í stað miðað við fyrri ár.

Ríkisstjórn Trump reyndi meðal annars að fæla fólk frá því að freista þess að koma til landsins ólöglega með því að taka börn af foreldrum sínum. Innflytjendayfirvöld skildu um 2.500 börn frá foreldrum sínum í vor. Í mörgum tilfellum voru börnin enn í haldi í Bandaríkjunum þrátt fyrir að foreldrunum hefði þegar verið vísað til heimalandsins.

Bandaríska dagblaðið segir að þeirri stefnu, sem Trump-stjórnin féll síðar frá vegna háværra mótmæla, hafi verið komið á án samráðs við þá sem stýra skýlunum sem var ætlað að taka við börnunum sem voru tekin af foreldrum sínum. Það hafi valdið glundroða í skýlunum þar sem þau börn voru yngri og í verra andlegu ástandi en þau sem skýlin taka vanalega við. Þá lá ekki fyrir nein áætlun um hvenær ætti að sleppa börnunum eða til hverra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×