Sport

Eiginkona Michael Schumacher í hjartnæmu bréfi: Hann neitar að gefast upp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Schumacher fagnar hér sigri með konu sína Corinnu á vinstri hönd.
Michael Schumacher fagnar hér sigri með konu sína Corinnu á vinstri hönd. Vísir/Getty

Michael Schumacher lenti í hryllilegu slysi í Ölpunum fyrir næstum því fimm árum og síðan þá hefur lítið heyrst í fjölskyldu formúlukappans. Nú hefur eiginkona hans óvænt sent frá sér hjartnæmt bréf.

Michael Schumacher var að skíðum 29. desember 2013 þegar hann féll og rak höfuðið í stein. Hann var með hjálm en slasaðist samt mjög illa. Síðan þá hefur heimurinn lítið fengið að vita um bata hans.

Corinna Schumacher, eiginkona Michael Schumacher, sendi bréfið til tónlistarmannsins Sascha Herchenbach, sem hafði áður samið lagið Born To Fight til heiðurs Michael. 

Herchenbach ákvað að leyfa þýska blaðinu Bunte að segja frá bréfinu. BT segir frá

„Ég vil þakka öllum frá innstu hjartarótum fyrir allar gjafirnar og öll hlýju orðin. Þau hjálpa okkur í gegnum þessa erfiðu tíma. Það hjálpaði fjölskyldunni mikið að fá allan þennan stuðning,“ skrifaði Corinna meðal annars.

„Við vitum öll að Michael er baráttumaður. Hann neitar að gefast upp,“ skrifaði Corinna.

Sascha Herchenbach sagði að bréf Corinnu hafi verið handskrifað og það hafi verið miklu persónulegra en hann bjóst við. Það fylgir þó ekki sögunni hversu langt er síðan að hún skrifaði það.

Fjölskyldan hefur haldið sig útaf fyrir sig frá slysinu og því er ekki vitað nákvæmlega um stöðuna á heilsu Michael.

Michael Schumacher er sjöfaldur heimsmeistari í formúlu eitt en hann vann meðal annars fimm ár í röð frá 2000 til 2004.

Michael verður fimmtugur í byrjun næsta árs (3. janúar).Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.