Erlent

Fordæmalaus tillaga um að ESB refsi Ungverjum samþykkt

Kjartan Kjartansson skrifar
Rúmur meirihluti þingmanna á Evrópuþinginu í Strasbourg greiddi tillögunni atkvæði sitt.
Rúmur meirihluti þingmanna á Evrópuþinginu í Strasbourg greiddi tillögunni atkvæði sitt. Vísir/EPA
Evrópuþingið samþykkti í dag fordæmalausar refsiaðgerðir gegn Ungverjalandi vegna brota á grunngildum Evrópusambandsins. Ástæðan er árásir ríkisstjórnar Viktors Orban forsætisráðherra á fjölmiðla, minnihlutahópa og réttarríkið.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að tveir af hverjum þremur Evrópuþingmönnum hafi greitt refsiaðgerðunum atkvæði sitt. Þetta er í fyrsta skipti sem tillaga af þessu tagi sem beinist að einu aðildarríkjanna er samþykkt. Leiðtogar aðildarríkjanna þurfa hins vegar að samþykkja tillöguna áður en sambandið beitir Ungverjalandi aðgerðum á grundvelli hennar.

Ungverjar gætu verið sviptir atkvæðisrétti innan Evrópusambandsins ef tillagan hlýtur endanlegt samþykki. Ólíklegt er þó talið að það gerist.

Ríkisstjórn Orban hefur rekið sérstaklega harða stefnu í innflytjendamálum. Þannig hafa stjórnvöld sett lög sem banna lögmönnum og aðgerðasinnum að aðstoða hælisleitendum á þeim forsendum að með því séu þeir að stuðla að „ólöglegum innflutningi fólks“.

Þá eru ásakanir um mikla spillingu auk þess sem stjórnvöld setji þrýsting á dómskerfið og kosningakerfið. Evrópuþingið lýsti einnig áhyggjum af stöðu tjáningar-, fundar- og trúfrelsis í Ungverjalandi auk réttinda flóttamanna og minnihlutahópa eins og gyðinga og rómafólks.

Orban hefur hafnað ásökunum Evrópuríkjanna. Kallar hann tillögu Evrópuþingsins „fjárkúgun“ og móðgun við Ungverjaland. Peter Szijjarto, utanríkisráðherra Ungverjalands, kallaði samþykkt tillögunnar „ómerkilega hefnd“ stjórnmálamanna „sem styðja innflytjendur“.


Tengdar fréttir

Ríkisstjórn Orban vill banna kynjafræði

Rökin eru að vinnuveitendur hafi ekki áhuga á kynjafræðingum. Andstæðingar Orban telja bannið hluta af herferð hans gegn þeim sem standa gegn íhaldsstefnu hans.

Ungverjar sagðir svelta hælisleitendur

Mannréttindavaktin segir ríkisstjórnina neita hælisleitendum um mat til að fá þá til að draga áfrýjanir til baka. Mannréttindabaráttusamtök gagnrýna meðferðina og segja hana ómannúðlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×