Fótbolti

Hafði ekki skorað í 913 daga en hefur nú skorað tvisvar á 11 dögum

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Berahino í leik með Stoke
Berahino í leik með Stoke Vísir/Getty
Eftir að hafa ekki skorað eitt einasta fótboltamark í 913 daga virðist sóknarmaðurinn Saido Berahino ekki getað hætt að skora en hann hefur skorað tvö mörk á aðeins 11 dögum!



Berahino var einn lykilmanna WBA tímabilið 2015-16 og vildi Tottenham fá hann í sínar raðir. Var hann til að mynda valinn í enska landsliðshópinn en var ónotaður varamaður.



Tottenham lagði fram tilboð í leikmanninn en WBA vildi ekki selja hann við mikla gremju Berahino.



Berahino fór í fýlu og neitaði að spila fyrir WBA og á endanum var hann seldur til Stoke. Þar hefur hann ekki staðið undir væntingum sem gerðar voru til hans, langt því frá.



Berahino skoraði sitt fyrsta mark fyrir Stoke er hann skoraði gegn Huddersfield í enska deildabikarnum og endaði þar með 913 daga markaþurrð sína.



Eftir að hafa flutt til Englands tíu ára gamall frá fæðingarlandi sínu, Búrúndí þá spilaði Berahino upp öll yngri landslið Englands.



En þar sem hann spilaði aldrei mótsleik fyrir A-landslið Englands vildi hann að fá að spila fyrir fæðingarþjóð sína og er hann ný búinn að fá leyfi til þess.



Berahino lék sinn fyrsta landsleik fyrir Búrúndí í gær og kom hann sínum mönnum yfir á 40. mínútu gegn Gabon í undankeppni Afríkukeppninnar.



Það dugði hins vegar ekki til því Pierre-Emerick Aubameyang, framherji Arsenal og stjarna Gabon jafnaði leikinn fjórtán mínútum fyrir leikslok. Urðu það lokatölur.



Búrúndí er á toppi C-riðils í undankeppninni eftir 3-0 sigur á Suður-Súdan í fyrstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×