Enski boltinn

Rodgers og Gerrard mætast á sunnudaginn: „Skiptir ekki máli hver er stjórinn hjá þeim“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gerrard og Rodgers á tíma þeirra beggja hjá Liverpool.
Gerrard og Rodgers á tíma þeirra beggja hjá Liverpool. vísir/getty
Það verður áhugaverður leikur á sunnudaginn er Rangers og Celtic mætist í skoska boltanum. Nú beinast spjótin að hliðarlínunni.

Steven Gerrard tók við Rangers fyrir tímabilið og stjóri Celtic er Brendan Rodgers en þessir tveir unnu saman hjá Liverpool er Rodgers var stjóri þar.

„Ég hlakka til að hitta hann. Hann er góður drengur. Við unnum vel saman hjá Liverpool. Ég sé þetta ekki sem baráttu þjálfaranna, það eru liðin á vellinum,” sagði Rodgers í samtali við fjölmiðla.

„Það skiptir ekki máli hvaða stjóri er hjá þeim á hverjum tíma. Fyrir mig er þetta að skoða hvernig þeir spila og undirbúa liðið til þess að vinna leikinn.”

„Það hef ég reynt að gera í þessum ellefu leikjum mínum gegn Rangers á þessum tveimur árum sem ég hef verið hér. Þar er minn fókus og að reyna undirbúa okkur eins vel og hægt er.”

Gerrard hefur byrjað vel sem stjóri Rangers. Liðið hefur ekki tapað leik undir stjórn hans en hann hefur stýrt þeim í ellefu leikjum.

„Það er enginn vafi á því að Gerrard hefur haft áhrif á þeirra leiki og breytt þeim á jákvæða vegu. Sama í hvernig formi þeir eru núna þá er alltaf erfitt að spila gegn þeim.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×