Sport

Gronkowski tekur eitt ár í viðbót

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gronk súr og svekktur eftir tapið í Super Bowl í febrúar. Hann ætlar sér að komast aftur þangað á næsta ári.
Gronk súr og svekktur eftir tapið í Super Bowl í febrúar. Hann ætlar sér að komast aftur þangað á næsta ári. vísir/getty

Stuðningsmenn New England Patriots anda léttar í dag þar sem innherjinn magnaði, Rob Gronkowski, hefur staðfest að hann ætli sér að spila með liðinu næsta vetur.

Gronkowski hefur legið undir feldi síðustu vikur og spáð í því hvort hann ætti að leggja skóna á hilluna þó svo hann sé aðeins 28 ára gamall. Hermt var að hann hefði íhugað það mjög alvarlega.

Hann hefur ekki enn hafið æfingar með liðinu en eftir fund með þjálfara liðsins, Bill Belichick, í gær ákvað hann að taka að minnsta kosti eitt ár í viðbót með liðinu.

„Ég sagði við þjálfarann að ég yrði með næsta vetur. Ég hef verið að æfa sjálfur, er í flottu formi og líður vel. Ég bíð spenntur eftir því að gera enn eina atlöguna að titlinum,“ skrifaði Gronkowski á Instagram.

Gronk hefur tvisvar sinnum orðið meistari með Patriots. Hann hefur fimm sinnum verið valinn í stjörnulið deildarinnar og er almennt talinn vera besti innherji allra tíma í deildinni.

Tom Brady hefur ekki enn staðfest að hann spili næsta vetur en þó svo hann sé ekki byrjaður að mæta á æfingar þá býst Patriots ekki við öðru en að hann spili. Tala nú ekki um þar sem Gronk ætlar að vera áfram með.

NFL


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.