Tíska og hönnun

Hönnunin verður að hafa einhvern tilgang

Guðný Hrönn skrifar
Ragna Sara Jónsdóttir og Ólína Rögnudóttir.
Ragna Sara Jónsdóttir og Ólína Rögnudóttir. Vísir/Stefán
Hönnuðurinn Ólína Rögnudóttir notaði hrein hráefni, svo sem gler, marmara, málma og íslenskan við, við gerð vörulínunnar Lifandi hlutir. „Útgangspunkturinn var sem sagt notagildi og hrein efni,“ segir Ólína um línuna sem verður frumsýnd á HönnunarMars.„Ég vil að hlutir línunnar hafi margþætt notagildi, yfirleitt tvo notkunarmöguleika, jafnvel þrjá. Það er umhverfisvænna vegna þess að í staðinn fyrir að kaupa tvo hluti þá getur neytandinn keypt einn hlut og nýtt í eitthvað tvennt eða meira.“Ólína hefur í gegnum tíðina mikið pælt í umhverfisvernd og margþættu notagildi. „Ég geng mikið út frá umhverfissjónarmiði, tilgangi og upplifun í minni hönnun. Það er svo rosalega mikið til af lífsstílsvörum í dag þannig að fyrir mér er markmiðið að hönnunin þjóni einhverjum tilgangi. Það sem við erum að leika okkur með í þessari vörulínu er þátttaka neytandans, að hann geti sjálfur leikið sér með útfærslur á hönnuninni.“

Sýnishorn úr línunni Lifandi hlutir.
Ólína leggur líka mikla áherslu á vandað framleiðsluferli og fór meðal annars af þeim sökum í samstarf við FÓLK sem leggur höfuðáherslu á að vinna með ábyrgum framleiðendum. „Ég vil að fólk hugsi um bakgrunn vörunnar. Það er alls ekki öll framleiðsla eins. Ef ég er að hanna eitthvað þá verður framleiðsluferlið að vera í lagi,“ segir Ólína.Eins og áður sagði er vörulínan samstarf Ólínu og hönnunarfyrirtækisins FÓLKs. Ragna Sara Jónsdóttir, stofnandi FÓLKs, er spennt fyrir að koma línunni Lifandi hlutir á markað.„Okkar markmið er að vinna með íslenskum hönnuðum. Við hjá FÓLKi sjáum mikla grósku í íslenskri hönnun. Það virðist þó sem hér á landi skorti hönnuði fleiri samstarfsaðila til að taka vöruþróunarferlið alla leið og koma hönnun sinni á markað. Við erum að sérhæfa okkur í því,“ útskýrir Ragna Sara.Hún mælir með að hönnunarunnendur kíki á vörulínuna Lifandi hluti sem verður sýnd á samsýningu EPAL á HönnunarMars, sem heitir Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd, og einnig í Geysir Heima.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.