Innlent

Innbrotið náðist á mynd í gagnaveri Advania

Kjartan Kjartansson skrifar
Eyjólfur Magnús er forstjóri gagnavera Advania. Hann segir að innbrotið hafi ekki sett stórt strik í reikninginn í framkvæmdum við nýbyggingu á svæðinu.
Eyjólfur Magnús er forstjóri gagnavera Advania. Hann segir að innbrotið hafi ekki sett stórt strik í reikninginn í framkvæmdum við nýbyggingu á svæðinu. Vísir/Anton Brink
Forstjóri gagnavera Advania telur líklegt að myndir úr öryggismyndavélum við gagnaver fyrirtækisins í Reykjanesbæ hafi komið lögreglu á spor þjófa sem stálu verðmætum tækjabúnaði þaðan og úr öðru gagnaveri í síðasta mánuði.

Lögreglan á Suðurnesjum greindi frá því fyrr í dag að tveir íslenskir karlmenn sitji nú í gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn á þremur innbrotum í gagnaver í Reykjanesbæ og Borgarbyggð þar sem samtals 600 tölvum var stolið í desember og janúar.

Í tilkynningu frá Advania kemur fram að þjófarnir hafi meðal annars brotist inn í nýbyggingu á framkvæmdasvæði við gagnver fyrirtækisins á Fitjum í Reykjanesbæ um miðjan janúar.

Nokkrir menn brutust inn í álmu í gagnaverinu sem ekki var tilbúin að fullu og höfðu á brott verðmætan tækjabúnað. Ekki var um að ræða búnað sem geymir gögn og því var aðeins um fjárhagslegt tjón að ræða, að sögn fyrirtækisins. Málið er sagt rannsakað sem skipulögð glæpastarfsemi. Að ósk lögreglu var ekki unnt að upplýsa um innbrotið fyrr en nú.

Minnstu stolið frá Advania

Atvikið náðist á öryggismyndavélar. Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri Advania Data Centers, segir að sem betur fer hafi svæðið verið vel varið með öryggismyndavélum og vörðum.

„Mér finnst mjög líklegt að þær upplýsingar hafi komið lögreglu á sporið,“ segir forstjórinn.

Hann segist ekki geta upplýst hvers konar búnaði var stolið vegna rannsóknarhagsmuna lögreglu. Þegar brotist var inn í gagnaver við Heiðatröð í Reykjanesbæ í desember greindi lögregla frá því að 600 skjákortum, 100 aflgjöfum, 100 móðurborðum, 100 minniskubbum og 100 örgjörvum hefði verið stolið.

Alls telur lögregla að verðmæti þýfisins úr innbrotunum þremur nemi um 200 milljónum króna. Eyjólfur Magnús segir að minnstum hluta hafi verið stolið frá Advania, líklega um fjórðungi eða fimmtungi heildarverðmætis þýfisins.


Tengdar fréttir

Rannsaka þjófnað á 600 tölvum

Tveir íslenskir karlmenn sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna umfangsmikillar rannsóknar lögreglunnar á Suðurnesjum á þremur innbrotum í gagnaver í Reykjanesbæ og Borgarbyggð




Fleiri fréttir

Sjá meira


×