Sport

Vetrarólympíuleikarnir eru hættulegri en sumarólympíuleikarnir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Keppendur í skíðafimi.
Keppendur í skíðafimi. Vísir/Getty
Einn af hverjum tíu sem keppir á vetrarólympíuleikunum meiðist á leikunum. Þetta kemur fram í rannsókn sem Alþjóðaólympíunefndin lét gera á undanförnum tveimur vetrarleikum.

Rannsóknin sýnir líka að vetrarólympíuleikarnir eru hættulegri en sumarólympíuleikarnir.  Dagbladet segir frá.

Alþjóðaólympíunefndin fékk upplýsingar frá öllum íþróttasamböndum þjóðanna og læknaliði þeirra og tók saman meiðslahættu íþróttafólksins út frá því. Hér voru tekin inn meiðsli sem voru það alvarleg að þau kölluðu á aðstoð læknaliðsins.

Hættulegasta íþróttin á vetrarólympíuleikunum er skíðafimin en næstum því helmingur keppenda þurfti á læknisaðstoð að halda. Á milli 31 til 37 prósent keppenda á snjóbrettum urðu einnig fyrir meiðslum. Þessar tvær greinar skera sig nokkuð úr.

Með því að bera saman meiðsli á vetrar- og sumarólympíuleikum komust rannsóknendur einnig að því að það er talsverður munur á meiðslum íþróttafólks á þessum tveimur leikum.

Það er niðurstaða þeirra að ástæðan fyrir því að meiðslatíðnin sé hærri á vetrarólympíuleikunum sé vegna þess að þar sé hraðinn meiri en á sumarleikunum. Íþróttafólkið fer hraðar, hærra og er lengur í loftinu en á sumarleikunum.

Þegar eitthvað gerist þá hefur það meiri meiðsli í för með sér af því að íþróttafólkið er oft á svo miklum hraða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×