Sport

Becker gjaldþrota og vill selja bikara upp í skuldir en veit ekki hvar þeir eru

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Boris Becker átti einu sinni þennan bikar.
Boris Becker átti einu sinni þennan bikar. vísir/getty
Fyrrverandi tenniskappinn og stórmeistarinn Boris Becker er búinn að týna fimm af sex bikurum sem hann fékk fyrir að vinna risamót á sínum glæsta ferli. BBC greinir frá.

Becker vann Wimbledon-mótið þrívegis, opna ástralska tvisvar sinnum og opna bandaríska meistaramótið einu sinni en titlunum safnaði hann frá 1985-1996. Hann var á sínum tíma besti tennisleikari heims samkvæmt styrkleikalistanum.

Þjóðverjinn var úrskurðaður gjaldþrota í júní á síðasta ári og vill nú selja bikarana sem hann fékk fyrir að vinna risamótin til að borga upp eitthvað af sínum skuldum. Gallin er að hann veit ekki hvar þeir eru.

„Herra Becker man ekki hvar bikararnir eru staðsettir,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu Beckers og fyrirtækisins í Lundúnum sem sér um gjaldþrotaskipti hans.

Hann á bikarinn sem hann fékk fyrir að vinna opna bandaríska meistaramótið en leitað er að þeim sem hann fékk fyrir að vinna opna ástralska og öllum þremur Wimbledon-bikurunum.

Forsvarsmenn enska, þýska, franska og ástralska tennissambandsins hafa fengið fyrirspurn frá þeim sem sjá um málefni Beckers en enginn veit hvar bikararnir eru staðsettir.

Becker hefur starfað í viðskiptum og í fjölmiðlum síðan að hann lagði spaðann á hilluna. Þá var hann þjálfari Novak Djokovic frá 2013-2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×