Þorrabjórar Steðja hafa vakið heimsathygli síðan í janúar 2014 þegar brugghúsið kynnti bjór sem innihélt hvalmjöl. Ári síðar fór í sölu bjór með taðreyktum eistum langreyða sem Dagbjartur segir stoltur að sé umdeildasti bjór heims. Umfjöllun Fréttablaðsins um bjórinn rataði í fréttir erlendra fjölmiðla á borð við BBC og The Guardian og vakti framleiðslan reiði erlendra dýraverndunarsinna.

„Þetta er mjög heilnæmt fyrir meltingarveginn og bætir þarmaflóruna. Við ákváðum að nota gerið til að búa til súrhval og svo er bjórinn bruggaður í belgískum Lambic-stíl en á okkar forsendum. Útkoman er súrbjór þar sem þetta gefur bjórnum eilitla sýru,“ segir Dagbjartur.

„Við opnuðum gestastofu hjá okkur í fyrravor og þetta er það sem þeir eru að leita eftir eða að finna eitthvað íslenskt og öðruvísi,“ segir Dagbjartur og nefnir sem dæmi að leikararnir Tori Spelling og Ian Ziering, sem gerðu garðinn frægan í sjónvarpsþáttunum Beverly Hills 90210 á tíunda áratugnum, hafi heimsótt Steðja í september síðastliðnum.
„Þau voru alveg vitlaus í þetta og fóru með þetta heim til sín í Hollywood og auglýstu þar. Ég er búinn að fá fullt af fyrirspurnum þaðan en þetta er auðvitað hvalafurð og vandmeðfarin vara,“ segir bruggarinn.