Erlent

Svisslendingur handtekinn í tengslum við morðin á Maren og Louisu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Louisa Vesterager Jespersen, 24 ára, og Maren Ueland, 28 ára, fundust myrtar í Marokkó þann 17. desember síðastliðinn.
Louisa Vesterager Jespersen, 24 ára, og Maren Ueland, 28 ára, fundust myrtar í Marokkó þann 17. desember síðastliðinn. Myndir/Facebook
Svissneskur ríkisborgari var handtekinn í Marrakesh í Marokkó í dag vegna morðanna á tveimur norrænum konum, Maren Ueland og Louisu Vesterager Jespersen.

Í tilkynningu frá lögreglu í Marokkó segir að maðurinn sé grunaður um tengsl við aðra menn sem handteknir hafa verið vegna málsins. Þá hafi hann átt þátt í að sannfæra menn í Marokkó og nágrannalöndum um að skipuleggja hryðjuverk gegn útlendingum og lögregluyfirvöldum í landinu. Einnig er maðurinn sagður hafa þjálfað einhverja af mönnunum í bogfimi.

Maðurinn hefur ekki verið nafngreindur en í tilkynningu lögreglu segir að hann sé með spænskan ríkisborgararétt, auk þess svissneska, en búsettur í Marokkó.

Alls hafa nítján karlmenn nú verið handteknir í tengslum við morðin á Maren og Louisu, þar af eru fjórir höfuðpaurar sem svarið höfðu hryðjuverkasamtökunum ISIS hollustueið viku áður en þeir létu til skarar skríða. Yfirvöld í Marokkó hafa þó gefið það út að mennirnir hafi ekki framið voðaverkið í beinu samráði við samtökin.

Vegfarandi gekk fram á lík Marenar og Louisu í grennd við bæinn Imlil í Atlasfjallgarðinum í Marokkó mánudaginn 17. desember en þær höfðu verið myrtar á hrottalegan hátt. Maren og Louisa stunduðu báðar nám við Háskólann í Þelamörk í Noregi og voru saman á mánaðarlöngu bakpokaferðalagi um Marokkó.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×