Erlent

Melania aftur sökuð um ritstuld

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Melania Trump kynnti í gær herferð sína fyrir auknu netöryggi barna.
Melania Trump kynnti í gær herferð sína fyrir auknu netöryggi barna. Vísir/getty
Bæklingur, sem er hluti af nýrri herferð Melaniu Trump um öryggi barna á netinu, þykir grunsamlega líkur bæklingi sem gefinn var út í stjórnartíð Baracks Obama.

Málið þykir hið vandræðalegasta fyrir eiginkonu Bandaríkjaforseta - ekki síst vegna þess að hún hefur áður verið gagnrýnd fyrir ritstuld. Ræða sem hún flutti á landsþingi Repúblikanaflokksins árið 2016 var að hluta tekin orðrétt upp úr sambærilegri ræðu, sem forsetafrúin Michelle Obama flutti árið 2008.

Herferð Melaniu ber nafnið Verið best, (e. Be best) og var henni ýtt úr vör í gær. Á heimasíðu Hvíta hússins er hlekkur á vefsetur herferðarinnar. Við hlekkinn stendur: „Foreldrar, smellið hér til að lesa Samtöl við börn um nethegðun, bæklingur eftir Melaniu Trump og alríkisráð viðskiptamála."

Síðar, eftir að netverjar bentu á að bæklingurinn væri nákvæmlega eins og sambærilegur bæklingur sem gefinn var út árið 2014, var orðalaginu breytt. Hann er nú sagður vera „Bæklingur alríkisráðs viðskiptamála, kynntur af Melaniu Trump."

Talsmaður Hvíta hússins staðfestir að orðalaginu hafi verið breytt. Hann segir það hafa verið gert vegna þess „misskilnings“ sem var uppi um eðli bæklingsins.

Sjá einnig: Sláandi líkindi með ræðu frú Trump og átta ára ræðu Michelle Obama



Þeim sem smella á hlekkinn á vef Hvíta hússins er vísað á bækling á pdf-formi. Kápan á bæklingi Melaniu er nær alfarið eins og kápan á fyrri bæklingnum, að frátöldum myndunum af farsímum. Þær hafa verið uppfærðar svo að þær líkist meira iPhone-snjallsímum.

Þá er orðalagið í bæklingunum nánast algjörlega eins.

Aðstoðarmaður Melaniu, Meredith McIver, sagðist bera ábyrgð á líkindum fyrrnefndar ræðu, sem forsetafrúin flutti árið 2016. McIver sagði að Melania hafi lesið brot úr ræðu Michelle Obama fyrir sig í gegnum síma í aðdraganda þingsins og að hún hafi fyrir mistök bætt brotunum við ræðu Melaniu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×