Keppt er í átta greinum, liðin eru einnig átta og er hvert þeirra með fimm liðsmenn. Þrír þeirra keppa hverju sinni, en Meistaradeildin er bæði einstaklings – og liðakeppni.
Lífland er í fyrsta sinn með lið í Meistaradeildinni en knaparnir eru þó öllu vanir. Innanborðs eru mikið reyndir keppnisknapar, sem mæta bæði með reynda hesta og hugsanlega nýjar stjörnur. Keppnin framundan er þó óskrifað blað að vanda.
„Þetta verður feiknasterkt, eins og alltaf. Það verður mikið af nýjum hestum, aðallega í fjórgangs og töltgreinum. Það verður spennandi að sjá hvaða stjörnur koma fram,“ segir Guðmundur Björgvinsson, liðsstjóri Líflands, en kynningu á liðinu má sjá í meðfylgjandi myndbandi.
Guðmundur og félagi hans, stjörnuknapinn Jakob Svavar Sigurðsson, voru báðir í öðrum liðum í fyrra en ákváðu að söðla um á síðustu stundu.
„Við höfum unnið mikið saman og líkað það vel. Við söknuðum hvors annars og ákváðum því að breya til. Ég held að það geri deildina jafnari og skemmtilegri.“
Guðmundur segir margt gera Meistaradeildina einstaka í heimi hestaíþróttanna. „Samveran er ofboðslega sterk og keppnin erfið. Þú þarft að vera með ofboðslega góða hesta til að gera vel og ég hef oft sagt að til að vinna þarf maður nánast að geta orðið Íslandsmeistari í hverri grein.“
Meistaradeildin er ein sterkasta keppni sem fram fer í hestaíþróttum í Íslandshestaheiminum og er ómissandi fyrir alla áhugamenn um hesta að fylgjast með.
Keppnin er sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og unnt er að tryggja sér áskrift á 365.is/bestasaetid. Einnig er unnt að fylgjast með á netinu á oz.com/meistaradeildin.