Innlent

Vélaherdeildir í heyskap á besta þurrkdegi sumarsins

Kristján Már Unnarsson skrifar
Jóhannes Gissurarson, bóndi á Herjólfsstöðum í Álftaveri.
Jóhannes Gissurarson, bóndi á Herjólfsstöðum í Álftaveri. Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Sunnlenskir bændur hafa verið á útopnu í heyskap síðustu sólarhringa í lengsta samfellda þurrviðriskafla sumarsins. Bóndi í Álftaveri segir gærdaginn hafa verið besta þurrkdaginn til þessa en minnir á að sumarið sé ekki búið. Sýnt var frá heyskap í Skaftárhreppi í fréttum Stöðvar 2. 

Loksins varð góður þurrkur á Suðurlandi í gær og hvarvetna mátti sjá traktora í heyskap. Eftir fádæma vætutíð ómuðu vélarhljóðin á ný á túnum sunnlenskra bænda.

Á Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri voru nánast öll tæki sem dugað gátu dregin fram. Sigurður Arnar Sverrisson bóndi ræsti meira að segja nærri sextugan Massey Ferguson í heyskapinn. Þar var reyndar verið að bíða eftir nýjum traktor en á meðan sagði hann að sá gamli yrði að standa sig.

Sigurður Sverrisson á Þykkvabæjarklaustri ræsti gamlan Ferguson fyrir heyskapinn.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Á nágrannabænum Herjólfsstöðum var Örvar Egill Kolbeinsson bóndi að raka saman og ungur sonur fékk að sitja í. Pabbinn og afinn Jóhannes Gissurarson þurfti að taka sér pásu frá heyskapnum til að mjólka kýrnar þegar við gripum hann í spjall í gærkvöldi.

Hann segir að dagurinn hafi klárlega verið besti þurrkdagur sumarsins.

Traktorar í heyskap á Þykkvabæjarklaustri í gær.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Jóhannes telur bændur í Skaftárhreppi hafa sloppið betur en starfsbræður vestar. 

„Við erum það austarlega á Suðurlandinu að við erum ekki eins illa settir með suðvestanáttina eins og vestan við Vík. Þannig að það hafa komið þurrir dagar  og svona þolanlegir heyskapardagar. En þeir hafa verið mjög fáir samt. 

Þannig að þetta gengur hægt og þetta gengur stirt. Það er góður dagur í dag og vonandi er þetta eitthvað að breytast.” 

Frá heyskap í Álftaveri. Kirkjan á Þykkvabæjarklaustri í baksýn.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Gæði heyjanna sýnist honum rýrari en undanfarin sumur. 

„Það er verið að taka þetta svona fullsprottið og kannski óþarflega sprottið, margt af þessum heyjum sem tekin eru. Og þau eru tekin blaut. 

Það svo sem skiptir ekki höfuðmáli. Það er þyngra að gefa þetta í vetur. En ég held að þau eigi svona að vera þolanleg að gæðum. Ég held það,” segir Jóhannes en bætir við: 

„Það er ekki búið, sumarið.”

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×