Innlent

Aðstoðarmaður utanríkisráðherra segir Ísland hafa samþykkt yfirlýsingu NATO

Kjartan Kjartansson skrifar
Borgar Þór segir íslensk stjórnvöld hafa samþykkt yfirlýsingu sem NATO sendi frá sér um árásirnar í gær.
Borgar Þór segir íslensk stjórnvöld hafa samþykkt yfirlýsingu sem NATO sendi frá sér um árásirnar í gær. Vísir/ÞÞ
Íslensk stjórnvöld ljáðu stuðningsyfirlýsingu NATO við loftárásir Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands samþykki sitt. Þetta segir aðstoðarmaður utanríkisráðherra. Forsætisráðherra sagði RÚV í gær að Ísland hefði ekki lýst „sérstökum stuðningi“ við árásirnar.

Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, var gestur í Silfrinu á RÚV í hádeginu. Hann segir að ríkisstjórnin hafi samþykkt yfirlýsingu sem NATO sendi frá sér í gær. Í henni var fullum stuðningi aðildarríkjanna lýst við loftárásirnar sem beindust gegn getu Sýrlandsstjórnar til að beita efnavopnum.

„Okkar afstaða í þessu máli ræðst fyrst og fremst af því að við teljum þessar aðgerðir skiljanlegar við mótmælum þeim ekki og við fylgjum þeirri samstöðu sem að er meðal allra vestrænna ríkja í málinu,“ sagði Borgar Þór.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í viðtali við RÚV í gær að ríkisstjórnin hefði ekki lýst „sérstökum stuðningi“ við aðgerðirnar þó að hún hefði skilning á þeim. Hún hefur lagt áherslu á að íslensk stjórnvöld telji einu lausnina á Sýrlandsstríðinu diplómatíska.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, gerði athugasemd við ósamræmi í yfirlýsingu NATO annars vegar og ráðherrans hins vegar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Þar sagðist hann telja það „afsagnarsök“ ef íslenskir ráðamenn hefðu stutt árásirnar en ekki sagt satt frá því.

Utanríkisráðherra og embættismenn utanríkisráðuneytisins munu koma á fund utanríkismálanefndar sem hefur verið boðaður í kvöld vegna loftárásanna í Sýrlandi.


Tengdar fréttir

Efast um réttmæti loftárásanna í Sýrlandi

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Logi Einarsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir ræddu loftárásir Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands á Sýrland í þættinum Sprengisandi í dag.

Sarín- og klórgas sagt notað í Douma

Loftárásir Bandaríkjanna, Breta og Frakka eru sagðar hafa náð markmiðum sínum um að laska efnavopnagetu sýrlenskra stjórnvalda.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.