Erlent

Dana ekki refsað fyrir afskræmingar á kynfærum kvenna

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Peter Frederiksen í réttarsal.
Peter Frederiksen í réttarsal. vísir/afp
Dómstóll í Suður-Afríku sakfelldi í dag Danann Peter Frederiksen fyrir framleiðslu barnakláms, nauðgun ólögráða einstaklings og ráðagerð um manndráp. Frederiksen var einnig ákærður fyrir limlestingar á kynfærum yfir 21 konu en sá hluti ákærunnar var felldur niður vegna skorts á skýrum refsiheimildum fyrir slíkan verknað í suður-afrískri refsilöggjöf. Danski vefmiðillinn Thelocal.dk greindi frá.

Frederiksen er búsettur í bænum Bloemfontein Suður-Afríku en þar rekur hann verslun með skotvopn. Hann neitaði sök í öllum ákæruliðum.

Lögregla fann meira en tíu afskorin kynfæri kvenna í frysti á heimili Frederiksen í september 2015. Í fórum Frederiksen fundust einnig skurðlæknahnífar, svefnlyf og ljósmyndir sem sýndu framkvæmd afskræminganna. Á heimili hans fundust einnig klámfengnar ljósmyndir af börnum.

Flest fórnarlambanna eru talin koma frá Lesotho, ríki sem er steinsnar frá Bloemfontein, en ekki er útilokað að einnig hafi verið um dönsk fórnarlömb að ræða.

Eiginkona Frederiksen, Anna Matseliso Molise, var myrt 22. október 2015 en hún hefði gegnt lykilstöðu sem vitni í málinu. Molise var sjálf á meðal fórnarlamba Frederiksen en hún hafði sótt um skilnað við hann skömmu áður en hún var ráðin af dögum.Bloemfontein í Suður-Afríku.GoogleMaps.
Kynbundið ofbeldi algengt í Suður-Afríku

Kynbundið ofbeldi er vandamál í Suður-Afríku, líkt og svo víða í heiminum. Á árunum 2015 og 2016 voru nálega 52 þúsund brot tilkynnt til yfirvalda en þó er talið að flest ofbeldisbrot gegn konum sem viðgangast þar í landi séu raunar aldrei tilkynnt.

John Jeffery, dómsmálaráðherra Suður-Afríku lýsti því yfir á ráðstefnu um kynbundið ofbeldi í Suður-Afríku í mars á þessu ári að yfirvöld hafi varið miklum fjármunum í forvarnir í málaflokkinum og á síðustu árum hafa neyðarmóttökum fyrir fórnarlömb kynbundins ofbeldis meðal annars verið fjölgað til muna.

 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.