Erlent

Fékk gröfu yfir sig og festist í vatni en tókst að halda lífi á ótrúlegan hátt

atli ísleifsson skrifar
Slökkvilið dældi vatni og drullu áður en þeir fóru ofan í til að bjarga Miller.
Slökkvilið dældi vatni og drullu áður en þeir fóru ofan í til að bjarga Miller.
Ástralskur maður komst lífs af á ótrúlegan hátt eftir að hafa fengið gröfu yfir sig og þannig fests í vatni á afskekktu búi sínu. Maðurinn náði að halda nefinu einu ofan við vatnsborðið í nokkra klukkutíma áður en hann fannst og það tókst að bjarga honum úr klípunni.

Í frétt BBC segir að hinn 45 ára Daniel Miller hafi verið að aka gröfunni á búinu sem er um 300 kílómetrum norður af Sydney. Þegar kantur stíflunnar þar sem hann var að störfum brast festist Miller í vatni eftir að hafa fengið þriggja tonna gröfuna yfir sig.

Miller kveðst hafa notast við jógastellingu – með því að fetta bakið og ná þannig að halda hluta andlitsins fyrir otan vatnsborðið – allt þar til nágranni í 500 metra fjarlægð heyrði öskur hans.

„Ég var fastur og varð að halda höfðinu fyrir ofan vatn með því að notast við hendurnar. Ég býst við að þetta hafi verið kóbrastellingin,“ sagði Miller í samtali við Sydney's Daily Telegraph. Segir hann að jóga og viljinn til lífs hafi þannig bjargað lífi hans.

Björgunarlið segir að tvo tíma hafi tekið að bjarga honum úr vatninu, en eiginkona Miller sagði á Facebook að hann hafi verið þar í fimm tíma.

Miller segir að allan tímann hafi hann hugsað um að hann yrði að komast aftur til eiginkonu sinnar og tveggja ungra barna þeirra.

Slökkvilið dældi vatni og drullu áður en þeir gátu farið ofan í til að ná Miller aftur á þurrt land. Hann var svo fluttur á sjúkrahús í þyrlu, kaldur og með minniháttar bakmeiðsli.

Sjá má viðtal við Miller að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×