Sport

Meira en tuttugu þúsund lyfjapróf fyrir ÓL í Pyeongchang 2018

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Suður Kórea tekur á móti heiminum í febrúar á næsta ári.
Suður Kórea tekur á móti heiminum í febrúar á næsta ári. Vísir/Getty
Alþjóðaólympíunefndin ætlar að gera allt í valdi sínu til að tryggja hreina Ólympíuleika í Pyeongchang í Suður-Kóreu en vetrarleikarnir verða settir þar í febrúar á næsta ári.

Markmiðið er að finna „óhreina“ fólkið áður en að leikunum kemur og því munu yfir tuttugu þúsund lyfjapróf hafa farið fram þegar leikarnir verða settir í Pyeongchang 9. febrúar.

Íþróttafólkið sem ætlar að taka þátt í Vetrarleikunum í Pyeongchang mun því þurfa að ganga í gegnum lyfjapróf á næstu mánuðum og sumir oftar en einu sinni.

Rússneska íþróttafólkið er sem dæmi ofarlega á listanum yfir þá sem þurfa að gangast undir lyfaprófin.

„Við höfum framkvæmt sjö þúsund lyfjapróf á fjögur þúsund einstaklingum fram til nóvember,“ sagði Richard Budgett yfirmaður læknaliðs Alþjóðaólympíunefndarinnar í samtali við Reuters fréttastofuna.

„Það verða miklu fleiri lyfjapróf á næstu tveimur til þremur mánuðum enda keppnistímabilið komið á fullt. Ég býst við því að lyfjaprófin verði á endanum fleiri en tuttugu þúsund,“ sagði Budgett.

Síðustu vetrarleikar í Sotsjí í Rússlandi eru svartur blettur í sögu Ólympíuleikanna eftir að upp komst um skipulagt svindl gestgjafa Rússa sem hjálpuðu „óhreinu“ íþróttafólki sínu að komast í gegnum lyfjapróf.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×