Sport

Los Angeles samþykkir að halda Ólympíuleikana 2028

Atli Ísleifsson skrifar
Eric Garcetti, borgarstjóri Los Angeles, tilkynnti um ákvörðunina í gærkvöldi.
Eric Garcetti, borgarstjóri Los Angeles, tilkynnti um ákvörðunina í gærkvöldi. Vísir/AFP
Borgaryfirvöld í Los Angeles hafa formlega samþykkt að halda Sumarólympíuleikana 2028. Það þýðir að franska höfuðborgin París stendur ein eftir í baráttunni um að halda leikana 2024.

Alþjóðaólympíunefndin tilkynnti í júní að til stæði að taka ákvörðun á sama tíma um hvaða borgir myndu halda leikana 2024 og 2028. Var ljóst að valið stæði milli einungis París og Los Angeles þó að óljóst væri hvaða borg fengi að að halda leikana hvaða ár. Báðar höfðu sóst eftir að halda leikana 2024.

Alþjóðaólympíunefndin hefur fagnað ákvörðun yfirvalda í Los Angeles að bjóðast til að halda leikana 2028 og heitið því að leggja 1,8 milljarða Bandaríkjadala, um 187 milljarða króna á núvirði, til undirbúningsvinnunnar.

Los Angeles hefur tvívegis áður hýst leikana, árið 1932 og 1984. Ólympíuleikar voru síðast haldnir í Bandaríkjunum árið 2002 þegar vetrarleikarnir fóru fram í Salt Lake City. Sumarleikar fóru síðast fram í Bandaríkjunum í Atlanta 1996.

Næstu sumarleikar verða haldnir í japönsku höfuðborginni Tókýó árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×