Íslenski boltinn

Fyrirliði KR hættir á miðju tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Indriði Sigurðsson.
Indriði Sigurðsson. Vísir/Stefán

Indriði Sigurðsson, fyrirliði KR, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna núna. Hann hefur glímt við meiðsli í allt sumar og er ákvörðunin samkvæmt ráðleggingum lækna og sjúkraþjálfara.

Þetta kemur fram á heimasíðu KR þar sem lesa má yfirlýsingu um málið.

Indriði er 35 ára gamall og var á sínu öðru ári í Vesturbænum eftir að hafa komið heim úr atvinnumennsku.

Indriði var ekki búinn að vera með í fimm síðustu leikjum KR í Pepsi-deildinni en síðasti leikur hans með liðinu var á móti ÍBV í Vestmannaeyjum 15. júní síðastliðinn. Indriði náði aðeins að spila sjö leiki á þessu tímabili.

Indriði varð tvöfaldur meistari með KR árið 1999 og hélt í framhaldinu út í atvinnumennsku.  Hann snéri aftur til uppeldisfélagsins að loknum glæstum atvinnumannaferli fyrir keppnistímabilið í fyrra.

Indriði lék með Lilleström, Lyn og Vikingi í Noregi auk þess að spila í þrjú ár með KRC Genk í Belgíu.

„Knattspyrnudeild KR þakkar Indriða fyrir framlag hans inná knattspyrnuvellinum en mun engu að síður áfram njóta starfskrafta hans út þetta keppnistímabil, hið minnsta.,“ segir í fréttinni á heimasíðu KR.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.