Tónlist

Iðandi rokkveisla

Elín Albertsdóttir skrifar
Kristján Freyr Halldórsson er rokkstjóri Aldrei fór ég suður. Undirbúningur er á fullu og Kristján lofar flottustu hátíðinni í endurbættri skemmu.
Kristján Freyr Halldórsson er rokkstjóri Aldrei fór ég suður. Undirbúningur er á fullu og Kristján lofar flottustu hátíðinni í endurbættri skemmu. MYND/HÖRÐUR SVEINSSON

Rokkhátíðin Aldrei fór ég suður hefst á skírdag og undirbúningur hefur verið á fullu. Mikill áhugi er á hátíðinni.

Kristján Freyr Halldórsson er rokkstjóri hátíðarinnar að þessu sinni. Hann hefur ekki áður gegnt því starfi þótt hann hafi verið viðriðinn hátíðina frá upphafi. Aldrei fór ég suður var fyrst haldin árið 2004 og hefur stækkað og þróast ár frá ári.

„Ég hef unnið við skipulagningu og undirbúning frá byrjun og er því ekki ókunnugur starfinu þótt ég hafi núna hlotið þennan virðulega titil,“ segir Kristján sem fór suður í orðsins fyllstu merkingu. Hann er frá Hnífsdal en er núna búsettur í borginni. Kristján var einmitt nýbúinn að skrifa undir kaupsamning að nýrri íbúð í Hlíðunum ásamt konu sinni, Bryndísi Stefánsdóttur, þegar við slógum á þráðinn til hans. „Hlíðarnar eru eins og lítið þorp með kaupmanninn á horninu. Okkur finnst skemmtilegt að upplifa þorpið í borginni. Á meðan á undirbúningi hátíðarinnar stendur bý ég hins vegar hjá mömmu á Ísafirði svo ég er kominn heim,“ segir hann.

Okkar þjóðhátíð

Undirbúningur er á fleygiferð. „Það er eiginlega lygilega mörg verk að vinna þótt hátíðin sé bara í tvo daga. Meðfram undirbúningi er ég að skrásetja verkin þannig að rokkstjóri næstu ára geti unnið eftir ákveðnu Excel-skjali,“ segir Kristján sem á ekki von á því að halda starfinu áfram á næsta ári.

„Okkur finnst alveg tími til að yngja upp,“ segir hann og hlær. „Þetta má ekki líta út eins og miðaldursrokkhátíð,“ gantast hann með en bendir á að gott sé að hafa dreifðan aldur og nýtt blóð. „Það er samt alltaf gaman hjá okkur. Við erum tuttugu manna hópur úr öllum áttum sem komum að undirbúningi hátíðarinnar. Allt samfélagið hér fyrir vestan kemur auk þess að þessum viðburði á einn eða annan hátt. Við viljum virkja fólk á Vestfjörðum og búa til stemningu um páskana. Þetta er okkar þjóðhátíð.“


Aukning á hverju ári

Kristján segir að gestum sé alltaf að fjölga. „Í fyrra komu hingað um 3.500 manns samkvæmt tölum sem við höfum fengið frá Flugfélagi Íslands og Vegagerðinni. Það er alveg magnað. Menningin blómstrar á Ísafirði ekkert síður en í Reykjavík. Okkur hefur tekist ótrúlega vel að fá tónlistarmenn. Við viljum hafa blandaða tónlist og hún verður fjölbreytt núna. Ég get nefnt Emmsjé Gauta, KK-band, Valdimar, Ham, Mugison, Hildi, Rythmatik og Lúðrasveit Ísafjarðar. Svo koma tvær ungar hljómsveitir frá Suðureyri auk annarra. Þetta verður góð flóra. Mér þykir gaman hversu margar stelpur eru í popp- og rokktónlist.“

Kristján vann lengi hjá Máli og menningu á Laugaveginum en starfar nú á auglýsingastofunni Árnasynir. Hann segist vera með stanslausan kvíðahnút yfir að gleyma einhverju fyrir hátíðina.

„Þetta gengur samt eins og vel smurð vél með góðri samvinnu. Ég hef mjög gaman af því að fást við þetta verkefni og það er mikil tilhlökkun í loftinu. Við höfum bætt aðstöðuna í skemmunni og höfum útbúið aðgengi fyrir fatlaða. Þá er búið að endurgera veitingasöluna. Við hlökkum mikið til að bjóða gestum til okkar. Þetta er fjórtánda hátíðin og hún hefur aldrei verið flottari.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.