Lífið

Upplifun mín af geðdeild

visir/Eyþór
Árið 2014 féllu að minnsta kosti 49 Íslendingar fyrir eigin hendi. Á sama ári misstum við fjögur mannslíf í umferðinni á Íslandi, sem er óvenjulega lág tala. Mikið hefur enda farið fyrir forvörnum í þeim málaflokki og ekki þarf að efast um gildi þeirra reglulegu herferða sem farið er í fyrir bættu umferðaröryggi hér á landi. Þeir fjármunir sem fara í slík verkefni skila sér aftur í margfalt verðmætara formi: mannslífum. Með framlögum til forvarna í umferðinni höfum við hlíft heilu fjölskyldunum við því svartnætti og þeirri sorg sem fylgir því að missa náinn ástvin í blóma lífsins.

Hvernig stendur þá á því að á hverju ári horfum við á eftir tugum ungmenna sem fyrirfara sér og lítið sem ekkert fer fyrir forvörnum í geðheilbrigðismálum? Allir sérfræðingar eru sammála um að geðsjúkdómar fylgja sama lögmáli og önnur lífshættuleg veikindi: Því fyrr sem gripið er inn í, því meiri eru líkurnar á bata. Það er frumskylda yfirvalda, þar á meðal okkar sem sitjum á hinu svokallaða háa Alþingi, að halda lífinu í landsmönnum. Við getum ekki skorast undan þeirri ábyrgð.

Þegar ég var tveggja ára gamall uppgötvaðist að ég hafði fæðst með eitt ónýtt lunga. Hætta var talin á að drepið myndi breiðast út og foreldrar mínir myndu horfa á eftir litla barninu sínu fara í gröfina stuttu eftir að það lærði að ganga. Ekkert var til sparað til að bjarga lífi litla barnsins sem ég var þá. Sérfræðingar voru kallaðir inn frá Svíþjóð og eftir langa og tvísýna skurðaðgerð varð ljóst að ég myndi lifa.

Nokkru seinna, þegar ég var kominn á unglingsár, uppgötvaðist að ég hafði fæðst með annan lífshættulegan galla en í þetta sinn var það heilinn sem var bilaður og ekki hægt að skera upp. Ég þjáðist af sjúklegu þunglyndi og var oftar en einu sinni hætt kominn. Fyrir utan þær vítiskvalir sem fylgja sjúkdómnum gegnsýrir hann allt lífshlaup þess sem af honum þjáist og bitnar ekki síst á aðstandendum sem koma jafnvel að lokuðum dyrum í geðheilbrigðiskerfinu á meðan barnið þeirra er úr öllum tengslum við raunveruleikann. Sem betur fer hafa margir gefið sig fram við fjölmiðla, sérstaklega á síðustu misserum, til að lýsa þeirri óhugnanlegu stöðu sem ríkir í þessum málum.

Þegar þú kemur með andlega veikan einstakling inn í kerfið í fyrsta sinn mætir þér kafkaískt völundarhús þar sem lítill hópur lækna og annarra sérfræðinga er að reyna að bjarga þeim lífum sem þeir geta án þess að hafa til þess fjármagn eða aðstöðu. Til að fá að leggjast inn þarf viðkomandi að vera í „bráðri sjálfsvígshættu“ – staðan er slík að það er ekki hægt að hjálpa öllum og því er fyrst og fremst verið að keppast við að halda lífinu í þeim allra veikustu. Tölfræðin sýnir að það gengur ekki vel.

Mannréttindabrot

Eitt einkenni sjúkdómsins er einmitt að sjá engar lausnir en maður þarf því miður ekki að vera veikur til að sjá að fyrir marga er það bara blákaldur raunveruleikinn. Þeir hafa bókstaflega í engin hús að venda og engar lausnir eru í boði nema í besta falli tímabundin vistun og örorka til frambúðar. Bráðamóttaka geðdeildar er ekki opin um kvöld og helgar, fólk er því vinsamlegast beðið um að missa ekki vitið utan skrifstofutíma heldur harka af sér. Það er ólíðandi mannréttindabrot sem yrði ekki liðið ef um nokkurn annan sjúkdóm væri að ræða, t.d. hjartasjúkdóm.

Þegar ég veiktist vegna heilagalla (andleg veikindi eru í raun líkamleg veikindi, það er bara líffærið heilinn sem er í ólagi) var ekki hringt til Svíþjóðar til að kalla út færustu sérfræðinga, jafnvel þó að ég hafi verið í alveg jafn mikilli lífshættu vegna þunglyndis og ég var vegna lungnagallans á sínum tíma. Eftir að hafa velkst um í kerfinu í mörg ár var ég svo heppinn að finna frábæran lækni sem gat hitt mig reglulega og komið mér aftur út í lífið með blöndu af lyfjagjöf og samtalsmeðferð – en það er ekki hlaupið að því að finna slíka verndarengla í kerfinu og fæstir eru svo heppnir.

Skaðinn skeður

Áður en ég skrifaði þessa grein ræddi ég við sjúklinga, lækna og aðra sérfræðinga sem ég hef átt samskipti við vegna minna eigin veikinda. Eins og kom fram í fjölmiðlum hef ég verið í tímabundnu leyfi frá Alþingi vegna veikindanna sem tóku sig illa upp rétt fyrir jól. Þeir sem ég ræddi við voru einróma um að það sem skipti mestu máli væri að grípa inn í eins fljótt og auðið væri, en það væri ekki lengur hægt vegna fjárskorts og manneklu. Þú færð ekki þá aðstoð sem þú þarft fyrr en það er orðið of seint og skaðinn er skeður. Það er ekki bara gróft mannréttindabrot og lífsgæðaskerðing heldur gríðarlega kostnaðarsamt fyrir ríkið sem hefur þetta fólk á launum sem öryrkja alla ævi, eins langt og það svo nær. Mikil skammsýni hefur ríkt í þessum málaflokki allt of lengi. Það er hluti af ástæðunni fyrir að við Íslendingar eigum heimsmet í notkun geðlyfja.

Ég gæti skrifað greinabálk um allt sem þarf að gera í geðheilbrigðiskerfinu til að tryggja sjúklingum mannsæmandi líf og læknisþjónustu en við skulum byrja á því sem við vitum að virkar og getur dregið mjög úr álagi á geðheilbrigðiskerfið í heild sinni til lengri tíma. Það eru forvarnir, ekki síst í formi þess að þeir sem leita til heilsugæslunnar fái strax á því stigi greiningu og aðstoð. Sálfræðiþjónustu þarf að niðurgreiða og efna þarf gamalt loforð um að bjóða fólki hugræna atferlismeðferð í gegnum heilsugæslustöðvar. Geðdeild á ekki bara að vera endastöð fyrir fólk sem er við það að fyrirfara sér, þjónustan þarf að vera mun víðtækari og taka við fólki áður en í óefni er komið.

Þegar ég fór sjálfur nýlega inn á geðdeild mætti mér mikill skilningur en algjört aðstöðuleysi og greinilegur fjárskortur. Það eina sem virkar enn almennilega í þessu húsnæði geðdeildar er raunar starfsfólkið. Á geðdeild vinna miklar hetjur sem berjast fyrir lífi skjólstæðinga sinna á hverjum degi en þurfa að horfa á eftir tugum þeirra í gröfina á hverju ári þegar allir vita að hægt væri að gera betur með auknum framlögum til málaflokksins. Ég get ekki ímyndað mér hvað það tekur á sál þeirra sem vinna þetta óeigingjarna starf.

Það er ekkert verðmætara en mannslíf og við verðum að taka höndum saman til að gera geðheilbrigðismál að forgangsatriði og ópólitísku máli sem varðar alla landsmenn jafn mikið og umferðaröryggi. Skítt með flokkspólitík, skítt með rifrildi um peninga, skítt með allt saman þangað til að við sem sitjum á Alþingi getum raunverulega horft í spegil og sagt að við höfum gert allt sem í okkar valdi stóð til að bjarga þessu vanrækta fólki frá dauða og glötun. Ég hef fundið það á eigin skinni að það er allt annað að vera líkamlega eða andlega veikur hér á landi, andlega veikir mæta afgangi með kerfisbundnum hætti og það eyðileggur heilu fjölskyldurnar.

Eigum skömmina skilið

Að meðaltali fyrirfer sér allt að einn Íslendingur á viku og ákveðinn hluti þeirra lífa verður að skrifast á áralangt aðgerðarleysi yfirvalda í geðheilbrigðismálum – ég get ekki og vil ekki hafa fleiri slík mannslíf á samviskunni. Hvað eigum við að bíða margar vikur til viðbótar? Hvað eigum við að segja við aðstandendur þeirra sem deyja í millitíðinni? Að við höfum haft of mikið að gera í pólitísku rifrildi á Alþingi til að huga að geðheilsu og lífi fólks í landinu? Geðsjúkdómar eru ekkert til að skammast sín fyrir en aðgerðarleysi yfirvalda í málaflokknum er vítavert. Ég krefst þess, fyrir hönd fjölda örvæntingarfullra og útskúfaðra Íslendinga, að kollegar mínir taki höndum saman og bæti ráð sitt hvað þennan málaflokk varðar. Þangað til er skömmin okkar þingmanna og við eigum hana skilið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×