Víðast hvar um land mun viðra ágætlega til þrettándagleði í tilefni síðasta dags jóla sem er í dag, 6. janúar. Þrettándabrennur verða haldnar víða um land í kvöld. Íbúar höfuðborgarsvæðisins gætu þó þurft að sætta sig við slyddu eða snjókomu.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands nálgast lægðardrag landið síðdegis í dag og fer þá að þykkna upp sunnan- og vestanlands með slyddu, en síðan rigningu á þeim slóðum undir kvöld. Úrkomulítið verður á öðrum landshlutum í kvöld en þó gæti tekið að hvessa í grennd við Eyjafjörð þar sem gert er ráð fyrir vaxandi suðlægri átt.
Fjölmargar brennur verða haldnar víða um land. Þrjár brennur verða í Reykjavík, í Vesturbænum, Grafarvogi og Grafarholti. Þá verður þrettándagleði haldin á Ásvöllum í Hafnarfirði. Á Akureyri verður þrettándagleði haldin á íþróttasvæði Þórs, venju samkvæmt.
Þrettándagleði Bolungarvíkurkaupstaðar og Ísafjarðarbæjar verður haldin við Hreggnasa í Bolungarvík og í Fljótsdalshéraði verður þrettándagleði Hattar og Fljótsdalshéraðs verður haldin með hefðbundnu sniði í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum.
Veðurhorfur á landinu
Vestan 5-13 m/s og stöku él en bjartviðri austantil. Hiti um og undir frostmarki. Hægt vaxandi suðaustanátt síðdegis sunnan- og vestanlands með slyddu eða snjókomu og hlýnar smám saman. Sunnan og suðaustan 10-18 m/s og rigning á láglendi en slydda til fjalla í nótt, en 15-25 m/s á Miðhálendinu og Tröllaskaga. Á morgun kólnar aftur í veðri með suðvestanátt á öllu landinu. Él um landið vestanvert og samfelldari ofankoma annað kvöld en úrkomulítið austanlands.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á sunnudag:
Suðaustan 5-13 m/s og skýjað en dálítil snjómugga um landið sunnan- og suðvestanvert framan af degi. Vaxandi austlæg átt síðdegis, víða 15-23 m/s um kvöldið, fyrst við suðurströndina en NV-til um miðnætti. Talsverð slydda eða rigning undir kvöld en snjókoma til fjalla. Úrkomumest á suðaustanverðu landinu. Vægt frost í fyrstu en hlýnar sunnan og vestanlands um kvöldið.
Á mánudag:
Norðaustan 18-23 m/s og snjókoma á landinu norðanverðu en 10-18 m/s og léttir til sunnan jökla. Dregur smám saman úr vindi og úrkomu þegar líður á kvöldið. Frost 1 til 6 stig, en sums staðar frostlaust við sjávarsíðuna.
Á þriðjudag:
Norðaustan 5-13 m/s og snjókoma um landið norðanvert en suðvestan kaldi og dálítil slydda eða snjókoma suðvestantil. Úrkomulítið á austanverðu landinu. Frost 0 til 6 stig, en froslaust við suðurströndina.
Á miðvikudag og fimmtudag:
Útlit fyrir norðanátt, dálitla snjókomu og talsvert frost í öllum landshlutum.
Viðrar vel fyrir þrettándabrennur í kvöld

Tengdar fréttir

Þrettándabrennur á þremur stöðum í borginni
Þrettándabrennur verða á þremur stöðum í Reykjavík föstudaginn 6. janúar; í Vesturbæ, Grafarvogi og Grafarholti.