Innlent

Fékk í nefið frá húsa­smíða­meistara sem blöskrar verð­hækkanir á nef­tóbaki

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Með sextíu prósent hækkun á neftóbaki um áramótin fær ríkið einn milljarð krona í tekjur. Met var sett í sölu á neftóbaki á nýliðnu ári þegar um fjörutíu tonn af tóbakinu seldust. Húsasmíðameistari á Selfossi sem hefur tekið í nefið í þrjátíu ár er mjög ósáttur við hækkunina enda sé þetta eitt af því fáa sem hann leyfi sér.

Hilmar Björnsson sem er eldri borgari á Selfossi og húsasmíðameistari hefur verið duglegur að taka í nefið í gegnum árin. Hann segist eiga mjög erfitt að sætta sig við þá hækkun sem varð á neftóbaki um áramótin.

„Ég hef tekið í nefið í rúm þrjátíu ár og maður hefur svo sem ekki kvartað yfir smá hækkunum en þetta keyrir fram úr hófi. Ef að það getur verið raunin að það sé hægt að fá útsöluverð úr búðum sem nemur um einum milljarði í viðbót bara með neftóbaksdósum þá er ég bara undrandi,“ segir Hilmar.

Hilmar tekur einn bauk á viku í nefið og segir að baukurinn sé núna 1000-1200 krónum dýrari núna en fyrir áramót

Þetta er mikil hækkun fyrir eins gamlan kall eins og þig sem er hættur að vinna?

Hækkunin tók gildi um áramótin
„Það er það en þetta er aðallega prinsipp-mál. Ég þoli ekki svona bull. Það er eiginlega það,“ segir Hilmar

Hvað áttu við með bulli?

„Að hækka um 60 prósent. Það er ekki eðlilegt. Langur vegur frá,“ segir Hilmar.

Hilmar segist einu sinni hafa reynt að hætta að taka í nefið, það gekk í þrjá daga og hann hefur ekki í hyggju að hætta að taka í nefið en vildi ólmur bjóða fréttamanni í nefið.

„Á maður að setja í báðar nasirnar eða bara aðra“

„Þú ræður því“

„Fer maður svo ekki að hnerra?“

Hilmar gengur mikið á Selfossi, að minnsta kosti 45 mínútur á dag.

Er baukurinn alltaf með?

„Að sjálfsögðu, ég fer ekki að sofa nema hafa hann við hliðina á mér,“ segir Hilmar.

Er svona mikil ást á milli ykkar?

„Jájá, við erum vinir,“ segir Hilmar.


Tengdar fréttir

Um 32 tonn af tóbaki enduðu í vörinni

Heildsöluverð á neftóbaki hækkaði um 60 prósent um áramótin. Forstjóri ÁTVR lagði til að álögur á neftóbak yrðu hækkaðar. Ungir karlmenn taka tóbakið í vörina. Dósin kostar nú um 3.000 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×