Enski boltinn

Tekur John Terry við Bröndby?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Samkvæmt frétt Daily Mirror í dag hefur Jan Bech Andersen, eigandi Bröndby, áhuga á að fá John Terry til félagsins til að gerast spilandi þjálfari.

Andersen þessi gerði allt vitlaust í Danmörku í síðustu viku eftir að upp komst um að hann hefði tjáð sig, undir dulnefni, um málefni félagsins á stuðningsmannavef og gagnrýnt bæði leikmenn og þjálfara harkalega.

Sjá einnig: Eigandi Bröndby úthúðaði þjálfurum og leikmönnum á spjallborði undir dulnefni

Andersen og Terry eru góðir vinir og er ekki talið líklegt að Terry verði áfram í herbúðum Chelsea þegar samningur hans við félagið rennur út í sumar.

Samkvæmt frétt Daily Mirror hafa Terry og Andersen þegar rætt um möguleikann um að Terry taki við en Bröndby missti þjálfarann Thomas Frank í síðustu viku eftir ósætti við eiganda félagsins. Aurelijus Skarbalius tók tímabundið við þjálfun Bröndby.

Líklegt er að mörg félög verði á höttunum eftir Terry í sumar, sérstaklega lið í Kína og miðausturlöndum. En ólíklegt er mörg þeirra muni bjóða honum sömuleiðis að gerast þjálfari, líkt og eigandi Bröndby virðist reiðubúinn að gera.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×