Innlent

Íbúi á Flateyri: Alvarlegt mál gagnvart hótelum, matvælavinnslu og sjúklingum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Mengunin uppgötvaðist 31. ágúst en íbúar fengu ekki vitneskju um hana fyrr en um miðjan september.
Mengunin uppgötvaðist 31. ágúst en íbúar fengu ekki vitneskju um hana fyrr en um miðjan september. vísir/pjetur
Bæjaryfirvöld í Ísafjarðar­bæ og Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða vissu af saurgerlum í neysluvatni Flateyrar í sextán daga án þess að íbúum væri gert viðvart. Fyrst var sagt frá málinu á vef Bæjarins besta.

„Það er ljóst að Ísafjarðarbær hafði vitneskju um þetta og lét okkur ekki vita,“ segir Guðmundur Björgvinsson, íbúi á Flateyri. Hann hefur undanfarna daga verið í samskiptum við bæjarskrifstofu til að fá upplýsingar um málið.

„Ég hef fengið svör með niðurstöðum úr sýnatökum síðustu ára en engin svör við því hvað fór úrskeiðis.“

Gísli Halldór Halldórsson bæjarstóri Ísafjarðarbæjarmynd/benedikt hermannsson
Við eftirlit kom í ljós að útfjólublá ljósapera, sem hefur það hlutverk að drepa slíka gerla, hafði bilað. Skipt var um peru fyrir helgi og ætti neysluvatnið nú að vera laust við gerla. Niðurstöður úr nýrri sýnatöku liggja fyrir í dag.

„Þetta er auðvitað alvarlegt mál, sérstaklega gagnvart hótelum, matvælavinnslu og sjúklingum og fólki með veikt ónæmiskerfi,“ segir Guðmundur.

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða tók fyrra sýnið þann 31. ágúst síðastliðinn en það innihélt bæði kólí- og E.kólígerla. Þegar sýnið var tekið stóðu framkvæmdir yfir við vatnsveituna. Talið var líklegt að mengunina mætti rekja til þeirra, og að um tímabundið ástand hefði verið að ræða. Að sögn Antons Helgasonar, forstjóra Heilbrigðiseftirlitsins, var bæjaryfirvöldum gert viðvart. „Hinn 12. september tókum við annað sýni og þá úr íbúðarhúsi sem er tengt annarri lögn. Það reyndist líka innihalda saurgerla. Við gerðum bænum viðvart á ný en lengra ná okkar aðgerðir ekki,“ segir Anton.

„Niðurstöður sýnatökunnar leiddu ekki til þeirra viðbragða og upplýsingagjafar sem nauðsynlegt er að viðhafa,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Hann bætir því við að hann viti ekki hvar skilaboðin um mengunina strönduðu; hvort þau hafi ekki borist frá Heilbrigðiseftirlitinu eða týnst á bæjarskrifstofunni. „Það er til heilla að ekki var um að ræða verulega mengun að þessu sinni, en hins vegar er mjög alvarlegt að mælingar skyldu ekki leiða til tafarlausra aðgerða.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×