Innlent

Ekki peningur til fyrir nauðsynlegum lyfjum: Íslenskum sjúklingum bjóðast ekki sömu úrræði og nágrönnunum

Sveinn Arnarsson skrifar
Íslenskir sjúklingar hafa því ekki aðgang að sömu lyfjameðferðum og sjúklingar á Norðurlöndunum.
Íslenskir sjúklingar hafa því ekki aðgang að sömu lyfjameðferðum og sjúklingar á Norðurlöndunum. Vísir/Pjetur
Peningar til kaupa á nýjum sjúkrahúslyfjum á þessu ári er uppurnir og nýjum lyfjum hafnað af svokallaðri Lyfjagreiðslunefnd ríkisins. Þetta staðfestir Guðrún Gylfadóttir, formaður Lyfjagreiðslunefndar. Í flestum tilvikum er um að ræða lyf sem eru komin í notkun á öllum hinum Norðurlöndunum. Íslenskir sjúklingar hafa því ekki aðgang að sömu lyfjameðferðum og sjúklingar á Norðurlöndunum.

„Afleiðing þessa er að íslenska heilbrigðiskerfið býður alvarlega veiku fólki ekki sömu úrræði í meðferð og sjúklingar fá í þeim löndum sem við höfum viljað bera okkur saman við,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda. Þetta þýðir að ný lyf á sviðum þar sem þróunin er mest, til að mynda í krabbameinslækningum og í nýjum gigtarlyfjum, komast ekki á markað hér á landi.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í febrúar að tryggja meira fé til lyfjakaupa svo unnt yrði að taka í notkun fleiri ný lyf á árinu 2016. Í fjárlögum ársins var gert ráð fyrir rúmum sex milljörðum króna en það fé er nú búið og enn þrír og hálfur mánuður til áramóta.

Guðrún Gylfadóttir, formaður Lyfjagreiðslunefndar, segir það rétt að fjármagn sé uppurið og meira til en vill horfa jákvæðum augum á árið. „Við höfum samþykkt mikinn fjölda nýrra lyfja á árinu. Lyfjagreiðslunefnd forgangsraðar stöðugt lyfjum og gerir það í samvinnu við Landspítalann um að tryggja rétta forgangsröðun,“ segir hún.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×